Í fullyrðingum Seðlabankans um að opinberir starfsmenn leiði kjarahækkanir er verið að leggja út frá krónutöluhækkunum á lægstu laun og þeim snúið í prósentuhækkanir svo þær hljómi hærri. Þarna er verið að snúa upp sérlega góðan árangur láglaunafólks í kjarabaráttunni til að smíða vopn í áróðursstríðinu.
Þetta er rakið einkar vel í grein Guðmundur Freyr Sveinsson, deildarstjóri kjaradeildar Sameykis, segir í síðasta tölublaði tímarits Sameykis, þar sem hann fjallar um hvernig hentugleikaframsetning hefur verið notuð til að rökstyðja málflutning um að opinberir starfsmenn leiði launaþróun í landinu með því að vísa í prósentur.
„Í síðustu kjarasamningum var samið um krónutöluhækkanir fyrir þá starfsmenn sem eru á föstum töxtum, sbr. opinbera starfsmenn,“ skrifar Guðmundur. „Heildartala hækkana á tímabilinu nam 90.000 kr. og komu á grunnlaun á eftirfarandi tímum:
Það sem hefur gerst í kjölfarið er að hentugleikaframsetning hefur verið notuð til að rökstyðja málflutning um að opinberir starfsmenn leiði launaþróun í landinu með því að vísa í prósentur, þ.e. að starfsmenn Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga hafi hækkað um allt að 30 prósent á tímabilinu meðan almenni markaðurinn hafi aðeins hækkað um rétt rúm 20 prósent.“
Segir Guðmundur Freyr að sannleikurinn sé allt annar og launamunur mælist lægri hjá opinbera launamarkaðnum samkvæmt Kjaratölfræðinefnd.
„Sannleikurinn er hins vegar sá að krónutölur sem leggjast á lágar upphæðir vega þungt í prósentureikningum en gefa í engu fleiri krónur í vasann. Sannleikurinn er einnig sá að viðkomandi starfsmenn mælast enn með lægstu launin á vinnumarkaðnum eða á bilinu 619-627 þúsund krónur á mánuði í reglubundin laun til samanburðar við 689 þúsund á almenna markaðnum samkvæmt Kjaratölfræðinefnd í júní 2022,“ skrifar Guðmundur.
„Seðlabankinn hefur þar á meðal verið duglegur að vísa til ábyrgra kjarasamninga og um leið keyrt vexti áfram sem bitnar hvað mest á þeim sem minnst hafa,“ skrifar Guðmundur. „Á þessu eru hins vegar aðrar hliðar sem mætti heyrast meira um en það er ábyrgð þeirra sem selja vörur og þjónustu í landinu. Það hefur nefnilega hingað til ekki staðið á verðhækkunum þegar samfélagið má minnst við þeim og því er ánægjulegt að sjá nokkur fyrirtæki stíga fram í haust og lofa föstu verðlagi á vörum sínum a.m.k. fram að áramótum. Einnig er alveg ljóst að í landinu eru mikil verðmæti og enginn peningaskortur á mörgum stöðum. Viðfangsefnið í kjarasamningum er nefnilega ekki aðeins að tryggja kaupmátt heldur líka réttláta skiptingu í landinu. Það er nefnilega nóg til.“
Hér má lesa grein Guðmundar: Kjaravetur framundan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga