Bandaríkin Suður-Kalifornía. Fyrr í vikunni sögðum við ykkur frá að til stæði að greiða atkvæði um verkfallsboðun í dag hjá starfsmönnum skemmtigarða Disney. Í þessu sambandi er rétt að segja smádæmisögu af skúringakonu sem vinnur í einum skemmtigarðanna.
Það hafa komið upp tímabil hjá þessari skúringakonu að hún var hrakin í það að hafa næturstað í sínum bíl með hundi sínum og þurfti að nota sturtuaðstöðu á tjaldsvæði því launin buðu ekki upp á betri lífsskilyrði.
Ekki nóg með að launin væru léleg heldur var hún að vinna á næturvakt. Vaktirnar byrjuðu yfirleitt kortér fyrir miðnætti til átta á morgnana. Þá var hún búin að slíta líkama sínum út alla nóttina við að bóna og pússa innan skemmtigarðsins sem Íslendingar þekkja sem Disneyland. Áður en að það kom að þessari næturvakt hafði hún verið í annarri vinnu fyrr um daginn, frá níu á morgnana til klukkan tvö á daginn. Skiljanlega átti hún erfitt með að halda sér vakandi þegar hún ók á milli vinnustaða. Það hljóta allir að sjá.
Þessi alþýðukona sem nú býr í Santa Ana ásamt kærasta sínum hefur unnið fyrir Disney í næstum sex ár. Hún fær greidd lágmarkslaun fyrir ræstistörf sín í Anaheim, sem eru 19,90 dollarar á klukkustund.
„Lífskjarakostnaður hér er svo hár,“ sagði konan. „Ég varð heimilislaus þrátt fyrir að hafa þrjú störf, því var ég hrakinn á tjaldsvæði í mínum bíl.“ Los Angeles Times greinir frá.
Hún er ein af um það bil 9.500 starfsmönnum Disneyland sem eiga rétt á að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsheimild í dag. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða kynntar á laugardag.
Þegar hér er komið við sögu, hugsa líklega margir. Hvers konar þjóðskipulag leyfir slíkan ójöfnuð að fólk sé hlaupandi á milli vinna bara til að eiga fyrir mat, ekki einu sinni húsaskjóli? Eða á þessi kona og aðrir í hennar stöðu sína fátækt skilið?