Það er bæði efnahagslega rétt og siðferðislega rétt að lækka skatta, sagði Liz Truss í varnarræðu sinni á landsfundi Íhaldsflokksins í morgun. Hún sagði siðferðislega rétt að lækka skatta á hin ríku, sagði að þau ættu peninginn en ekki ríkið. Og því meiri pening sem hin ríku hefðu því meira myndu þau gera af því sem þau gera best.
Truss sagði ríkisstjórnina hafa þrjú markmið: Vöxt, vöxt og vöxt. Og hljómaði eins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, sem sagði fyrir fáum árum að markmið ríkisstjórnarinnar ættu að vera: Atvinna, atvinna, atvinna.
Ræðan var varnarræða. Það er sótt að Liz Truss víða, einnig innan Íhaldsflokksins. Hún lagði áherslu á að efnahagsaðgerðirnar sem felldu pundið og hækkuðu vexti hafi fyrst og fremst verið um lækkun okruverðs. Skattalækkanir hafi verið aðeins lítill hluti þeirra. Og þótt þær hafi verið dregnar til baka væri stefnan óbreytt. Ríkisstjórn hennar ætlaði að lækka skatta á hin ríku.
Truss sagðist þekkja vel hvað stöðnun efnahagslífsins gæti gert. Hún hafi alist upp á níunda áratugnum í Paisley í skosku láglöndunum þar sem enginn vöxtur var. Og hún sagðist hafa upplifað órétt og mismunun, minntist þess þegar hún og bróðir hennar voru í flugvél og sér hafi verið boðið flugfreyjumerki á meðan bróður hennar fékk flugstjóramerki. Truss benti líka á að hún er fyrsti forsætisráðherra Bretlands sem kemur úr hinu almenna skólakerfi, ekki dýrum einkaskólum.
Liz Truss réðst að þeim sem hún sagðist vilja berjast gegn vexti í ræðu sinni; verkalýðsfélögum og sérfræðingaveldinu sem vildi frekar tjá sig á twitter en taka erfiðar ákvarðanir.
Þau taka leigubíl úr raðhúsunum sínum í Suður-London inn í stúdíó BBC til að tala niður þau sem ögra óbreyttu ástandi, sagði Trust. Frá útvarpi í hlaðvarp ferðast þau með sömu tugguna um meiri skatta, meira eftirlit, meiri ríkisafskipti. Þetta er rangt, rangt, rangt.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skota, var ein þeirra sem Liz Truss sagði í bandalagi stöðnunar. Hún svaraði á twitter og sagði að rant um meint bandalag stöðnunar væri aum tilraun til að draga athyglina frá þeirri staðreynd að það var Íhaldsflokkurinn sem bremsaði allan vöxt með Brexit.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er staddur á landsfundi systurflokksins. Hann póstaði á Facebook að hann væri ánægður með Liz Truss. „Hún flutti ágæta ræðu í morgun þar sem hún varði áform um lægri tekjuskatta á heimili og fyrirtæki í þágu vaxtar hagkerfisins til lengri tíma.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga