Þetta er næstum því eins og ástarjátning

Börn 22. okt 2022

Fleiri uppkomnir drengir sem Skeggi Ásbjarnarson, kennari við Laugarnesskóla og umsjónarmaður barnatíma Ríkisútvarpsins, stigu fram í öðrum þætti um Skeggja á rás eitt í morgun. Í þættinum var lesið úr minningargrein um tæplega fjórtán ára dreng sem Skeggi skrifaði 1949. Eftir lesturinn sagði Þorsteinn J. umsjónarmaður þáttanna: Þetta er næstum eins og ástarjátning.

Þættirnir eru afrakstur rannsóknar Þorsteins J. fjölmiðlamanns og Sólveigar Ólafsdóttur sagnfræðings og eru framleiddir af fyrirtæki Þorsteins fyrir RÚV. Í þeim stíga fram fjöldi fyrrum nemenda Skeggja sem lýsa bæði reynslu af kynferðisbrotum og að hafa orðið vitni af því þegar Skeggi braut gegn drengjunum í bekknum.

Björg Guðrún Gísladóttir fjallaði um kynferðisbrot Skeggja í bók sinni Hljóðin í nóttinni sem kom út 2014. Sagði frá hvernig Skeggi hefði sigtað út drengi frá fátækari heimilum, úr Höfðaborginni og Laugarneskampi, og brotið gegn þeim. Þá stigu fáir fram til að styðja frásögn Bjargar Guðrúnar, en í þáttum RÚV um Skeggja kemur fram margt fólk sem greinir frá því saman.

Í öðrum þætti las Sólveig brot úr minningargrein Skeggja um Pál Björgvin Ólafsson sem varð bráðkvaddur á skólalóð Laugarnesskóla vorið 1949. Sólveig segir að þetta sé eitt af því fáa sem liggur eftir Skeggja á prenti og hafi verið mjög sérstök minning á þeim tíma.

Minningargreinin hljóðar svo:

Kveðjuorð: Páll Björgvin Ólafsson

Á morgun, mánudaginn 25. apríl, verður drengurinn Páll Björgvin borinn til hinstu hvíldar. Hann fæddist hjer í Reykjavík 22. júlí 1935, en andaðist 16. apríl 1949 og var því aðeins kominn hátt á 14. árið, er hann ijest.

Tæp 14 ár eru ekki löng ævi, en á bernskuárunum safnar barnið þekkingu og þrótti, sem verða á veganesti seinna á lífsleiðinni, og frá þessum árum eiga hinir fullorðnu venjulega björtustu minningar sínar.

Páll Björgvin átti góða og umhyggjusama foreldra: Sigurdrífu Jóhannsdóttur og Ólaf Pálsson, húsgagnasmið. Búa þau hjónin að Efstasundi 52, og þar var heimili Páls litla.

Hann hafði fengið dugnað og drenglyndi í arf frá foreldrum sínum, og yfir þessum dýrgripum höfðu þeir ávallt vakað, frá því að hann leit fyrst dagsins ljós. Lærði Páll Björgvin snemma að meta umhyggju foreldra sinna, og hann sýndi það líka í verki. Hann kappkostaði ævinlega að verða þeim til sóma.

Jeg, sem þessar línur rita, man fyrst eftir Páli litla sólbjartan vordag, þegar hann kom í bekk til mín í Laugarnesskólanum. Hann var þá á 9. árinu, lítill, ljóshærður snáði, prúður og hæverskur. Þótt aldurinn væri ekki hár, tók þessi drengur námið föstum tökum, og jeg man, hve hann gladdist, er hann hafði sigrast á fyrstu verkefnum 9 ára barnanna.

— Og hann hjelt áfram að sigra. 

5 ár eru liðin, síðan jeg kynntist Páli fyrst, og jeg hef ekki misst sjónar á honum þennan tíma. Hann hefur verið nemandi minn, starfsfjelagi og vinur. Í fjóra vetur kenndi jeg honum, og það var ánægjulegt að fylgjast með þroskaferli hans Námsgáfur hans, samfara góðri athygli, og rólegri yfirvegun, skipuðu honum alla tíð í sess meðal duglegustu barna skólans. Skyldurækni hans, prúðmennska og hjálpfýsi öfluðu honum vina meðal kennara og námsfjelaga. Hæfileikar hans vöktu bjartar vonir um gæfuríka ævi. Vinir hans sáu hann í anda sem glæsilegan mann vinna heillarík störf í þágu lands vors og þjóðar.

Og nú ert þú horfinn.

Þegar páskarnir, mesta fagnaðarhátíð ársins, fóru í hönd, horfðu vinir þínir í skólanum tárvotum augum á eftir þjer, er þú fórst hjeðan alfarinn. Og við syrgjum þig enn. Foreldrarnir þínir, ástkæru og umhyggjusömu, syrgja þig — og elskandi systir þín. Allir sem þekktu þig, harma þig.

En er þá enga huggun að finna? Jú. Þó að þú sjert ekki lengur sýnilegur meðal okkar, eigum við minningu þína og verkin þín.

Merkur maður sagði eitt sinn eftirfarandi orð við vini sína: „Reynið eftir megni að haga lífsstarfi ykkar svo, að heimurinn verði ofurlítið betri, þegar þið kveðjið hann heldur en hann var, þegar þið komuð í hann“. 

Palli minn. Foreldrar þínir innrættu þjer fagrar dyggðir. Þú ávaxtaðir þær, og þær urðu þeim og öðrum til blessunar. Framkoma þín var fögur, hvar sem þú fórst. Þú vannst störf þín eins vel og þjer var unnt. Þú rjettir hjálparhönd, þar sem þess var þörf. Þú varst sólargeisli á heimili þinu og í skóla. Þú gafst okkur fyrirmynd, sýndir okkur, sem eftir lifum, hvernig hægt er að vera góður drengur. Þú bættir þann litla heim, sem þú lifðir i þitt bjarta og heiða bernskuvor. Hafðu þökk fyrir það. 

Foreldrar þínir og aðrir ættingjar eiga þjer mikið að þakka. Og jeg ber fram þakkir frá skólanum þínum, þakkir frá námsfjelögum þínum og starfsfjeiögum mínum, sem harma af heilum huga. 

Kæri, ungi vinur. Jeg þakka þjer samveruna á liðnum árum við leiki, nám og verkleg störf. Jeg þakka hjálpfýsi þína, vináttu og tryggð Jeg þakka þjer sólskinið. sem þú barst með þjer, hvar sem leið þín lá Vertu sæll. 

Guð blessi þig. 
Skeggi Ásbjarnarson.

Myndi er ef Skeggja og börnum í Laugarnesskóla fyrir sýningu á jólaleikriti skólans 1955.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí