Samkvæmt Hagstofunni hefur hagkerfið jafnað sig á cóvid-faraldrinum. Landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi var 3,8% hærri en á þriðja ársfjórðungi 2019, en fyrsta cóvid-smitið í Kína fannst í lok þess árs. Og afleiðingar af stríðinu í Úkraínu hefur ekki hægt á hagvextinum á Íslandi.
Hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins mælist 7,3% hjá Hagstofu en í nýbirtri þjóðhagsspá spáði stofnunin 6,2% hagvexti yfir árið. Það er því ljóst að forsendur þeirrar spár eru fallnar, hagvöxtur er mun meiri. Og það hlýtur að kalla á endurskoðun á forsendum kjarasamninga.
Vaxandi hagvöxtur mun hækka tekjur ríkissjóðs, auka bæði tekjur af virðisauka og tekjuskatti einstaklinga. Jafnvel af fjármagnstekjuskatti, ef hin ríku finna ekki leiðir til að seinka eða forðast skattgreiðslur í auknu mæli. Þetta er ástæða þess að ríkisstjórnin tilkynnti aukin útgjöld í fjárlögum næsta árs án þess að benda á hvar finna ætti tekjur á móti. Fjármálaráðuneytið reiknar með að aukin velta í hagkerfinu færi ríkissjóði auknar tekjur til að standa undir enn auknum útgjöldum. Undir fjárlögunum er hagspá sem gerði aðeins ráð fyrir 5,2% hagvexti í ár og 2,7% á næsta ári. Þær forsendur eru fallnar. Hagvöxtur er mun meiri.
En þessi tíðindi virðast ekki hafa borist til Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu. Þar vilja menn semja um lítið og til skamms tíma, eins og landið sé í miðri djúpri kreppu. Kröfur SA er um umtalsverða kjararýrnun launafólks, að almenningur taki á sig að greiða niður verðbólguna. Seðlabanki og ráðherrar hafa tekið undir þessar kröfur.
Sem kunnugt er hefur Efling hafnað þessari uppstillingu og krafist hækkunar launa sem færi kaupmátt lægstu launa að því sem var fyrir cóvid. VR hefur hafnað þessari kreppu-uppstillingu SA að hluta, sleit viðræðum en tekur samt þátt í þeim áfram. Starfsgreinasambandið og samflot iðnaðarmanna virðist hins vegar stefna á samninga á þessum forsendum. Þau reyna að draga úr kaupmáttarrýrnun frá kröfum SA með því að semja um tilfærslur á töxtum. Þá yrði samið um litla launahækkun og hún notuð sem fyrirmynd samninga við aðrar stéttir, en hluti félagsmanna fengi síðan meiri hækkun þar sem starfsaldursþrep hækkuðu umfram hækkun grunnlauna.
Búin hefur verið til tímapressa í Karphúsinu, um að ljúka samningum í dag svo launafólk fengi eingreiðslu fyrir jólin og einhverja hækkun á töxtum.
Í síðustu viku leysti vaxtahækkun Seðlabankans upp samningaviðræðurnar. Í raun er tilkynning Hagstofunnar um áframhaldandi hagvöxt líka forsendubreyting. Í þjóðhagsspá fjárlaga var gert ráð fyrir 2,7% hagvexti á næsta ári og í spá hagstofunnar í haust aðeins 1,6%. Þá var byggt á því að drægi úr hagvexti á seinni hluta þessa árs, sem ekki hefur orðið. Forsendurnar fyrir kröfum SA um litlar launahækkanir vegna versnandi efnahagsástands eru því brostnar.
Þótt Hagstofan geri ráð fyrir minni hagvexti á mann þá hefur hann vaxið um 3% frá þriðja ársfjórðungi í fyrra. Lægstu laun voru fyrir ári 351 þús. kr. en eru nú 368 þús. kr. Ef við hækkum launin frá í fyrra upp samkvæmt verðbólgunni frá því að lægstu laun hækkuðu í ársbyrjun 2021 og bætum við 3% framleiðniaukningu ættu þau að vera tæplega 413 þús kr. í dag. Það þarf því að koma til um 45 þús. kr. leiðrétting á því sem þegar er orðið áður en farið er að semja um hækkanir vegna verðbólgu og framleiðniaukningar næsta árs.
Ef við gerum ráð fyrir 6% verðbólgu og 1,5% framleiðniaukningu, sem væri algjört lágmark vantar 31 þús. kr. til viðbótar, samtals 76 þús. kr. Krafa Samtaka atvinnulífsins til láglaunafólks er 17 þús. kr.
Það er því ljóst að forsendur fyrir kreppusamningum SA eru brostnar.