Efling hefur nú svarað kröfum Samtaka atvinnulífsins um stuttan saming til eins árs með kröfu um 56.700 kr. launahækkun auk 15 þús. kr. framfærsluuppbótar. Ef miðað er við lágmarkslaun sem eru 368 þús. kr. í dag myndu þau hækka í tæplega 440 þús. kr. Í dag gæfi það fólki um 330 þús. kr. í útborguð laun.
Þetta er svar við tilboði SA um 17 þús. kr. hækkun lægstu launa, auk 30 þús. kr. eingreiðslu við undirritun. Miðað við lágmarkslaun myndi þetta hækka þau upp í tæplega 388 þús. kr. ef við smyrjum eingreiðslunni yfir samningstímann. Að óbreyttum skattalögum gæfi það fólki tæplega 300 þús. kr. í útborguð laun.
Framfærsluviðmið fyrir einstakling hjá Umboðsmanni skuldara er í dag rúmlega 195 þús. kr. án húsnæðiskostnaðar. Tilboð SA skilur eftir 105 þús. kr. upp í húsnæði, rafmagn og hita en tilboð Eflingar 135 þús. kr.
Ef við horfum til þróunar lægstu launa frá 2014 og í gegnum tvo síðustu samninga, þann sem gerður var 2015 og síðan lífskjarasamninginn frá 2019, sést að SA er í raun að leggja til að kaupmáttarauki lægstu launa sem náðist með lífskjarasamningnum verði þurrkaður út.
Grafið sýnir árangur af launahækkunum og síðan hvernig verðbólgan étur hann upp, með auknu afli að undanförnu. Verðbólgan á næsta ári er samkvæmt spá Hagstofunnar.
Hér eru lægstu laun á föstu verðlagi dagsins í dag. Kröfur Eflingar og SA eru settar þarna inn auk hagvaxtaraukans sem mun koma inn 1. maí á næsta ári, en sá tilheyrir lífskjarasamningnum. Og punktalínur dregnar frá lokum samningstímans til samanburðar við söguna.
Ef við reiknum með að láglaunafólkið haldi sínu þá verðum við að gera ráð fyrir nokkurri hækkun umfram verðlagsbreytingar, í það minnsta 1,5% árlegri hækkun. Ef ykkur finnst láglaunafólkið fá of litla sneið í samanburði við aðra, einkum fyrirtækja- og fjármagnseigendur, þá þurfa lægstu laun að hækka töluvert umfram verðlag.
Frá 2014 er ekki sjá að laun hafi þrýst upp verðbólgu. Og allra síst lægstu laun. Í raun er umtalsvert svigrúm til að hækka lægstu laun umfram verðlag, enda hafa fyrirtækin líklega aldrei skilað meiri hagnaði en í dag. Það er gósentíð í öllum helstu atvinnuvegum þjóðarinnar; mikill hagnaður, arðgreiðslur slá öll met, gjaldþrot hafa aldrei verið færri.
Grafið sýnir að SA er í reynd að leggja til að lægstu laun við lok árssamnings verði á föstu verðlagi það sama og þau voru við undirritun lífskjarasamningsins. Tilboð SA er að láglaunafólk taki á sig kjararýrnun sem þurrkar út árangurinn af lífskjarasamningnum og afsali sér allri hlutdeild í framleiðniaukningu síðustu fimm ára, frá miðju ári 2017.
Fyrirtækjaeigendur virðar lesa stuðninginn frá Seðlabanka og ríkisstjórn svo að þeir geti nú gert árás á launafólk, unnið til baka þær launahækkanir sem þeir sömdu um í síðustu tveimur samningum.
Kröfur Eflingar virðast miða að því fyrst og fremst að verja árangur lífskjarasamninganna eins og hann var bestur fyrir cóvid, áður en húsnæðisbólan og innflutta verðbólgan fór að grafa undan kaupmætti launafólks.
Í upphæðum er þetta svo að í ársbyrjun 2021 fóru lágmarkslaunin í 401.788 kr. á núvirði en miðað við kröfur Eflingar yrðu þau 409.349 kr. í janúar 2024 á verðlagi dagsins í dag. Miðað við kröfur Samtaka atvinnulífsins yrði þau 359.557 kr. á verðlagi dagsins.
SA er því að gera ráð fyrir rúmlega 42 þús. kr. kjararýrnun frá ársbyrjun 2021 en Efling að fara fram á rúmlega 7.500 kr. hækkun. Og það skrítna er að svo til allir fjölmiðlar á Íslandi kynna kröfur Eflingar sem hálfgalnar. Þegar öllum má vera ljóst að kröfur SA eru úr öllum tengslum við raunveruleika hagkerfisins.