Fleiri hafa stigið fram og sagt frá brotum Skeggja Ásbjarnarsyni kennara í þáttum Þorsteins J. Vilhjálmssonar á Ríkisútvarpinu, en fjórði af sex þáttum var fluttur í morgun. Í þáttunum kemur fram að brot Skeggja voru á vitorði margra; samnemenda, foreldra og skólayfirvalda. Samt fengu börnin engan vernd.
Í þættinum í morgun lýstu þolendur ofbeldinu og hvaða áhrif það hafði haft á sitt líf. Maður sem kynntur er aðeins með fornafninu Axel segir frá því hvernig Skeggi hafi leitað á hann hvenær sem færi gafst og oft fyrir framan aðra nemendur. Þegar Skeggi sýndi bíómyndir á bíósalnum og slökkti ljósin hafi drengirnir verið óvarðir fyrir þukli hans og káfi í myrkrinu.
Hin uppkomnu börn lýsa í þáttunum hvernig þau reyndu að láta að vita af ofbeldinu. Í sumum tilfellum vildu foreldrarnir ekki trúa en í öðrum var ekkert gert þótt mæður færu með börnum sínum í skólann með ábendingar um glæpi Skeggja. Skólastjóri og yfirkennari hafi hylmt yfir með Skeggja og hafi með því stefnt öðrum börnum í hættu.
Eins og í fyrri þáttum kom fram í morgun að Skeggi réðst einkum að drengjum sem komu af heimilum í veikri fjárhagsstöðu eða þar sem drykkja eða veikindi veiktu fjölskylduna. Eins og ekki er óalgengt er um barnaníðinga þá virðist Skeggi hafa lagst sérstaklega á drengi frá slíkum heimilum, vitandi að þeim var enn síður trúað en börnum almennt.
Þættir Þorsteins J. eru stórmerkilegir og væri efni þeirra án efa fréttaefni í flestum löndum. En svo er ekki hér.
Hér má hlýða á nýjasta þáttinn Skeggi: Ferðin til Limbó (fyrstu þrír þættirnir eru aðgengilegir í lista hægra megin við spilarann): https://www.ruv.is/utvarp/spila/skeggi/34015/a4chnk