Keyptu þrjár íbúðir á 52 milljónir en seldu á 98 stuttu síðar

Listi yfir sölu á eignum Íbúðalánasjóðs inniheldur margar ótrúlegar sögur. Ein er af Helen Dögg Karlsdóttur sem keypti þrjár íbúðir í Vestmannaeyjum af sjóðnum og seldi aftur stuttu síðar fyrir 46 m.kr. hærra verð á núvirði.

Í gögnum sem Íbúðaláansjóður lét af hendi í kjölfar fyrirspurna Þorsteins Sæmundssonar þingmanns, sést að nokkrir einstaklingar keyptu fleiri en eina íbúð þegar fasteignasölum var boðið að selja mikinn fjölda íbúða sem sjóðurinn hafði eignast við nauðungarsölu.

Helen Dögg Karlsdóttir er einn þessara einstaklinga. Hún er jógakennari og gift Gísli Ingi Gunnarsson veitingamanni, sem á sér langan og skrautlegan feril.

Helen Dögg keypti þrjár íbúðir af sjóðnum í gegnum Fasteignasölu Vestmannaeyja. Fyrst keypti hún 170 fermetra íbúð í húsinu við Fjólugötu 8 í júlí 2017 á 16 m.kr. og síðan tveimur mánuðum síðar aðra 148 fermetra íbúð í sama húsi á 11,8 m.kr.

Fasteignamat íbúðanna var á þessum tíma 43 m.kr. svo kaupverðið var aðeins 65% af fasteignamatinu.

Í kaupskrá fasteignamatsins er ekki skráð nein sala á annarri íbúðinni fyrir þennan tíma, en seint á árinu 2009 var hin íbúðin seld fyrir verð sem var þá 83% yfir fasteignamati.

Helen var eigandi íbúðanna fram á mitt ár 2019. Þá seldi hún þær með góðum hagnaði. Á núvirði keypti hún íbúðirnar á 35 m.kr. en seldi á 65 m.kr. Hún hagnaðist því um 30 m.kr. á 21 mánuði, um meira en 1,4 m.kr. á mánuði þann tíma sem hún átti íbúðirnar.

Helen keypti íbúðirnar á 65% af fasteignamati en seldi þær á 15% yfir fasteignamati.

Í millitíðinni keypti Helen aðra íbúð af Íbúðalánasjóði í gegnum sömu fasteignasölu, 177 fermetra íbúð að Ásavegi 7 á 14 m.kr. sem þá var um 59% af fasteignamati. Níu mánuðum síðar er íbúðin seld á 27,5 m.kr. sem var þá 9% yfir fasteignamati.

Á núvirði keypti Helen íbúðina af íbúðalánasjóði á 17,1 m.kr. en seldi á 32,7 m.kr. Munurinn er 15,6 m.kr., peningar sem urðu til á níu mánuðum, um 1,7 m.kr. á mánuði.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignasjá Þjóðskrár er ekki að merkja neinar verðsveiflur í fasteignaverði í Vestmannaeyjum á þessum tíma sem réttlætir þessa verðhækkun. Augljóst er að Helen keypti íbúðirnar á miklu undirverði.

Samanlagt borgaði Helen því þrjár íbúðir fyrir 52,2 m.kr. á núvirði og seldi þær stuttu síðar á 97,8 m.kr. á núvirði. Mismunurinn er 45,6 m.kr. Það er hagnaður sem Íbúðalánasjóður færði Helenu og hennar fjölskyldu. Og þetta eru verðmæti sem sjóðurinn tók af fólki sem lenti í greiðsluvandræðum eftir Hrun.

Eins og áður sagði á Gísli Ingi, eiginmaður Helenar, sér skrautlegan feril í veitingarekstri. Hann var um tíma umboðsmaður XXX Rottweiler, en það endaði illa. Heiti annarrar plötu hljómsveitarinnar Þú skuldar! er beint að að Gísla. Hann rak Prikið, Gaukinn, Thomsen og fleiri staði um aldamótin. Hann hefur sagt í viðtölum að hann hafi verið í mikilli neyslu á þessum tíma og dregist niður í undirheima Reykjavíkur. Á endanum flúði hann land undan skuldum, en var síðan handtekinn fyrir fíkniefnasmygl og -sölu í Finnlandi og sat þar af sér nokkurra ára dóm. Eftir að hafa náð sér á strik flutti hann aftur heim til Eyja og hefur þar rekið veitingastaði og gistiíbúðir. Þau Helen hafa búið saman í rúm tíu ár, stofnuðu fjölskyldu og giftust fyrir nokkrum árum.

Gísli hefur nokkrum sinnum komist í fréttir á þessum tíma. Hann hefur staðið í nágrannadeilum við Húsasmiðjuna í Vestmannaeyjum, m.a. dreift bárujárnsplötum á bílastæði nágranna síns. Og 2015 skráði hann á sig einkaleyfi á Pizza ’67 þegar það leyfi rann út, en Gísli Gíslason lögmaður hafði verið skráður fyrir því.

Og 2019 var Gísli Ingi dæmdur í sex mánaða skilorðsbundin fangelsi fyrir að hafa svikið vörur út úr Bauhaus byggingarvöruversluninni og fyrir peningaþvætti, það er að hafa notað ávinningin í viðskiptum.

Gísli er Sjálfstæðisflokksmaður og skrifaði m.a. stuðningsgrein um Elliði Vignisson fyrrum bæjarstjóra þegar Sjálfstæðisflokkurinn var að klofns í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum árum.

Skráin yfir sölu eigna Íbúðalánasjóðs ætti að segja okkur margar sögur. Öðrum megin eru sögur þeirra sem misstu allt sitt. Hinum megin er fólkið og fyrirtækin sem duttu í lukkupottinn þegar Íbúðalánasjóður seldi eignir sínar langt undir markaðsvirði.

Samstöðin mun halda áfram að segja þessar sögur. Ekki síst í tilefni þess að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur nú sent almenningi reikninginn fyrir tapi Íbúðalánasjóðs, sem rekja má til stórkostlegra mistaka við lagasetningu 2004 og síðan fráleita umgegni um eignir sjóðsins, ekki síst eftir Hrun þegar eignirnar voru seldar á hrakvirði til allskyns braskara, hrægamma og lukkuriddara.

Myndin er af þeim Helen Dögg Karlsdótturr og Gísla Inga Gunnarssyni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí