Ríkisstjórnin ekki fær um að selja Íslandsbanka

Ríkisfjármál 18. nóv 2022

„BSRB telur fullljóst að ríkisstjórnin sé ekki fær um að selja Íslandsbanka. Það væri eðlilegra að ríkið beitti sér með virkum hætti sem eigandi og bætti bankaumhverfið fyrir almenning í landinu,“ sagði Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur BSRB, á fulltrúaráðsfundi Sameykis í gær.

Hún sagði að í metnaðarlausu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar væri einungis ein leið til að ná niður skuldum ríkissjóðs; sala á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Það væri ein af forsendum frumvarpsins sem gengið væri út frá.

Með því að bregðast ekki við og nýta tekjustofna til að taka á augljósum vanda í heilbrigðiskerfinu, húsnæðiskerfinu og fleiri þáttum fjársveltra innviða væri ríkisstjórnin blind og yki vandann með aðgerðaleysi.

„Heilbrigðiskerfið er enn að jafna sig eftir heimsfaraldurinn og skortir fé til rekstrarins og uppsafnaðrar eftirspurnar eftir þjónustu,“ sagði Heiður Margrét. „Að gera ekki neitt þýðir að ástandið muni einungis versna að mati BSRB. Það er kerfislægur halli á rekstri ríkissjóðs, þ.e. að gjöldin eru hærri en tekjurnar og það er ekki útséð að það muni breytast. Það er tilkomið vegna skattalækkana á síðasta kjörtímabili og ekkert var gert á móti til að þær væru sjálfbærar til lengri tíma. Þessi mismunur á tekjum og gjöldum helst því inni ef ekki eru sóttar tekjur til reksturs ríkissjóðs á móti. Þá fer ríkisstjórnin í aðhald sem bitnar á grunnþjónustunni og notendum hennar sem verða að bíða lengur eftir læknisþjónustu, fá ekki læknisþjónustu, og svo starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem verður fyrir auknu álagi.“

Heiður fór yfir helstu atriði fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 og sagði að frumvarpið skipti almenning máli vegna þess að það festi þær fjárveitingar sem eru til ráðstöfunar fyrir næsta ár. Það skipti máli að gerðar væru athugasemdir við frumvarpið svo ekki væri hægt að stöðva fjárveitingar til mikilvægra mála sem varða samfélagið.

„Frumvarpið lýsir okkar hagkerfi þar sem einkaneysla hefur aldrei verið sterkari, hagvöxtur meiri og kaupmáttaraukning mikil,“ sagði Heiður Margrét. „Þetta er svona lýsing á einu stóru góðu partíi þar sem toppnum er varla náð og allir eru með allt til alls og geta veitt sér það sem þeir vilja. Okkar sýn er að það er alls ekki lýsandi fyrir stöðu allra í þjóðfélaginu og ekki sé tekið tillit til ólíkra hópa, allra síst tekjulágu hópanna. Markmiðið sem ríkisstjórnin leggur út frá í frumvarpinu er að takmarka útgjöld til innviðanna og sporna við þenslu. Þar birtist það með skýrum hætti sem við höfum óttast, að það á að ná jafnvægi í ríkisfjármálum með skertri opinberri þjónustu en ekki aukinni tekjuöflun þar sem sannarlega er svigrúm til staðar.“

Heiður vísaði til þess að að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla og við blasir að ríkisstjórnin er ekki með fjárlagafrumvarpinu að takast á við þær áskoranir sem blöstu við fjórða hverju heimili í landinu á síðasta ári þegar 38 þúsund heimili áttu erfitt með að ná endum saman samkvæmt Hagstofu Íslands.

„Þetta gerist áður en verðbólgan fer almennilega af stað og vextir fara að hækka,“ sagði Heiður Margrét. „Í þessum hópi þeirra 38 þúsund heimila eru einstæðir foreldrar 52 prósent sem áttu erfitt með að ná endum saman. Orðræðan í frumvarpinu er sérstök. Þar er því haldið fram að um gríðarlega uppsafnaða kaupmáttaraukningu sé að ræða og það vekur athygli að frumvarpið er lagt fram í september á þessu ári en tölurnar sem notaðar eru til grundvallar eru frá ársbyrjun 2022 sem byggja að meðaltali ársins á undan. Mjög sérstakt.“

Frétt af vef Sameykis, sjá hér: Áhersla á aðgerðaleysi í fjárlagafrumvarpinu

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí