Efling vísar til sátta, skrefi nær verkföllum

Efling hefur vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Þá tekur sáttasemjari við stjórn viðræðanna. Það er ekki fyrr en Efling lýsir þær viðræður árangurslausar að félagið getur efnt til kosningar meðal félagsmanna um verkfallsboðun.

„Við erum eina félagið sem hefur sett fram kröfugerð með tölusettum launakröfum. Við höfum verið opinská og heiðarleg við okkar viðsemjendur,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „Áhuga- og virðingarleysi Samtaka atvinnulífsins gagnvart félagsfólki Eflingar er hins vegar algjört. Okkur eru ekki veitt svör eða viðbrögð. Það er því rétt og óhjákvæmilegt að vísa deilunni til ríkissáttasemjara eins og heimilað er í lögunum um kjaraviðræður.“

Sólveig Anna kom að Rauða borðinu í gær og ræddi stöðuna í kjaraviðræðunum eftir að skrifað var undir samning Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins. Hún sagði Eflingu ekki geta sætt sig við þá samninga. Fyrir utan hagvaxtaraukann, sem í reynd tilheyrir lífskjarasamningnum, næðu hækkanir ekki að bæta launafólki verðhækkanir á liðnum mánuðum né samkvæmt verðbólguspá næsta árs. Með því að fella hagvaxtaraukann inn í nýjan samning væri í raun verið að gefa hann eftir.

Efling hefur styrk til að semja ein. Félagar Eflingar eru aðeins færri en félagar í þeim félögum sem standa að baki samningi Starfsgreinasambandsins. En til að ná árangri í viðræðum við stjórnvöld þyrftu fleiri félög og samtök að sameinast. Og helst að stefna að langtímasamningi. Efling gæti farið í samflot með VR og iðnaðarmönnum eða ekki. Það er stutt í kjaraviðræður við opinbera starfsmenn og það er mögulegt að hægt sé að mynda samstöðu með þeim um raunverulegar kjarabætur í formi skattalækkana, aðgerða í húsnæðismálum, vörn fyrir leigjendur og annarra aðgerða á vegum stjórnvalda.

Sólveig Anna hafnar því að samningur Starfsgreinasambandsins geti orðið fyrsti hlutinn í langtímasamningi. Hann sé einfaldlega ekki nógu góður og nái ekki að verja laun fólks yfir þá fimmtán mánuði sem hann gildir, hvað þá að bæta kjörin.

Viðtalið við Sólveigu Önnu má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí