Hlutafjárútboði í Play lauk í dag. Tuttugu stærstu hluthafarnir keyptu það sem þeir höfðu áður skráð sig fyrir en enginn annar hafði áhuga á hlutabréfum í félaginu.
Play hefur átt í vandræðum í haust. níu mánaða uppgjör félagsins, með háannatíma sumarsins inni, var langt undir yfirlýstum markmiðum. Og ljóst varð að félagið þyrfti nýtt hlutafé til að halda áfram rekstri. Stærstu hluthafa skráði sig fyrir nýju hlutafé í von um að bjarga því sem þeir höfðu þegar lagt í félagið. Meðal annars Birta lífeyrissjóður, sem sker sig úr öðrum lífeyrissjóðum fyrir að hafa trú á að fjárfesting í Play sé góð fyrir sína félagsmenn.
Þegar kom að öðrum og smærri hluthöfum varð ljóst að þar var enginn áhugi, enda hafði markaðsgengi á Play sokkið niður fyrir útboðsgengið. Enginn nema stærstu hluthafarnir létu það eftir sér að kaupa hlutabréf á yfirverði.
Ein af forsendunum undir viðskiptaáætlun Play var að brjóta niður afl launafólksins, stofna eigið gult stéttarfélag og semja við það um lakari kjör. Þetta eitt dugar ekki til. Útboðsgengi Play í upphaflega útboðinu var 18,00 kr. en við lokun markaða í dag voru bréfin seld á 13,55 kr. Þau sem fjárfestu upphaflega hafa tapað um 3,1 milljarði króna.