Á meðan iðgjöld tryggingafélaga á almenning hækkuðu um 17% á föstu verðlagi frá 2016-21 lækkuðu iðgjöld fyrirtækja um 3%. Tryggingafélögin hegða sér því eins og ríkissjóður, flytur skattbyrðina frá fyrirtækjum yfir á einstaklinga. Hækkun iðgjalda almennings hefur fjármagnað háar arðgreiðslur félaganna til eigenda sinna.
Þetta má lesa úr svari Bjarni Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Ágústs Bjarna Garðarsinar þingmanns Framsóknar um iðgjöld, hagnað og arð tryggingafélaga. Þar sést að iðgjöld vegna húseigendatrygginga hafa hækkað um 36% umfram verðlag, frjálsar ökutækjatryggingar um 25% en þær lögboðnu um 19% umfram verðlag. Aðrar tryggingar hafa hækkað minna. Vegið meðaltal er 17%.
Árið 2021 borguðu einstaklingar í iðgjöld til tryggingafélaganna 7,3 milljörðum króna meira á verðlagi dagsins en þeir gerðu 2017. Þetta er gríðarlegt fé, jafngildir 72 þús. kr. á ári á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Eða að sú fjölskylda hafi borgað sex þúsund krónur á mánuði í iðgjöld 2021 umfram það sem hún gerði fimm árum fyrr. Á verðlagi dagsins.
Það vekur athygli tryggingafélögin hafa lækkað iðgjöld á fyrirtæki á sama tíma og þau hækka iðgjöld á almenning. Það á sér engar eðlilegar skýringar. Líklegast er að félögin séu í samkeppni gagnvart fyrirtækjum en hafi með sér samkomulag um að okra áfram á almenningi og með vaxandi afli.
Á sama tíma sem iðgjöld almennings hafa hækkað um 7,3 milljarða króna á núvirði hafa iðgjöld fyrirtækja lækkað um 504 m.kr. Ef við miðum við óbreytt hlutfall á milli almennings og fyrirtækja frá 2017 má segja að iðgjöld almennings hafi hækkað um 5,9 milljarða króna umfram verðlag en svo hafi almenningur fjármagnað lækkun iðgjalda fyrirtækja upp á 1,4 milljarð króna.
Á þeim fimm árum sem spurt var um högnuðust tryggingarfélögin um 72,5 milljarða króna, um 7,9 milljarða króna að meðaltali hvert ár. Hagnaðurinn nemur rúmlega 12% af iðgjöldum. Félögin hafa greitt eigendum sínum um 47% alls hagnaðar út sem arð eða nýtt hann til að kaupa eigin bréf, sem er aðferð eigenda félaga til að færa hagnað til sín en draga úr skattgreiðslum. Eigendur þessara félaga hafa þannig dregið til sín um 34,0 milljarða króna á þessum fimm árum.
Stærstu tryggingafélögin eru Sjóvá, VÍS og TM.
Hrólfssker er stærsti hluthafi Sjóvár. Það hét áður SVN eignafélag og var fjárfestingaarmur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað en breytti um nafn þegar Kaldbakur, fjárfestingaarmur Samherja, gekk inn í félagið. Næst stærsti eigandinn er Snæból ehf., félag í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar. Steinunn er dóttir Jóns Helga Guðmundssonar, stofnanda Byko, og fyrrum eiginkona Hannesar Smárasonar. Finnur starfaði í Glitni og hagnaðist vel af því, hætti þar og seldi sinn hlut á sama tíma og Bjarni Ármannsson. Eftir það auðgaðist hann t.d. á kaupum á húsnæði varnarliðsins á Miðnesheiði af ríkinu.
Umræddur Bjarni Ármannsson á Sjávarsýn sem er næst stærsti eigandinn í VÍS á eftir Skel, sem áður hét Skeljungur, og er fjárfestingafélag sem stýrt er af Jóni Ásgeiri Jóhannssyni, fyrrum forstjóra Baugs, og þar sem Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona hans, er stærsti eigandinn.
TM er í eigu Kviku banka. Þar voru Stoðir stærsti eigandinn lengi vel, en félagið hefur selt niður hlut sinn að undanförnu með miklum hagnaði svo Lífeyrissjóðir verslunarmanna og starfsmanna ríkisins eru nú stærri. Eftir sem áður eru Stoðir leiðandi í félaginu, stjórnað af Jóni Sigurðssyni, fyrrum forstjóra FL-Group, og öðrum stjórnendum hjá FL-Group, Þorsteini Jónssyni kenndum við Coke, Magnúsi Ármann og fleiri kunnuglegum nöfnum úr Hruninu.
Eins og sjá má af þessu er hækkun iðgjalda og háar arðgreiðslur leiddar af stórleikurum Hrunsins 2008. Þarna liggja þræðir til Baugs, FL-Group, Glitnis og annarra fyrirtækja sem hrundu yfir almenning. Eigendur þessara Hrunfélaga og stjórnendur eru í dag ráðandi í öllum stærstu fyrirtækjum landsins og reka þar að mestu sömu stefnu og fyrr, að blóðmjólka fyrirtækin og viðskiptavina þeirra og færa eigendum þeirra sem mestan arð.