Þvert á það víða er haldið fram af ráðamönnum seðlabanka og fræðimönnum eru laun ekki orsök verðbólgu um þessar mundir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) þar sem bent er á að laun á heimsvísu hafi ekki haldið í við framleiðnivöxt frá aldarmótum. Gliðnunin hafi aukist í heimsfaraldrinum og ekki verið meiri frá aldarmótum. Þetta hefur þá þýðingu að hlutur launafólks í verðmætasköpun fer minnkandi yfir tíma.
Í skýrslunni sem fjallar um þróun launa um heim allan og nefnist á ensku Global Wage Report kemur fram að raunlaun hafa að meðaltali lækkað um 0,9% frá því að fyrstu lotu COVID-veirufaraldursins lauk. Lækkunin nemur 1,4% ef Kína er tekið út úr tölfræðinni.
Í ríkjum Evrópusambandsins þar sem stjórnvöld gripu til margvíslegra aðgerða til að verja störf og fyrirtæki hækkuðu raunlaun að meðaltali um 1,3% árið 2021 en lækkuðu um 2,4% á fyrri helmingi þessa árs.
Umrædd skýrsla ILO nýtur viðurkenningar sem besta heimild um þróun launa.
Ávísun á aukna fátækt
Luca Visentini, framkvæmdastjóri Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC), segir að bilið milli framleiðni og launa á árinu sem brátt er liðið sé hið mesta í 20 ár. Framleiðni hefur aukist verulega á undanförnum árum en laun hafa staðið í stað vegna tregðu stjórnvalda víða um heim til að hefta græðgi stórfyrirtækja auk þess sem ráðandi öfl í mörgum löndum hafa takmarkað félagafrelsi og ráðist gegn verkalýðsfélögum og samtakamætti launafólks.
Á heimsvísu jókst framleiðni um 12,6% umfram laun en þrátt fyrir það krefjast seðlabankastjórar víða um heim þess að laun haldist óbreytt. Þetta er ávísun á enn aukna fátækt þar sem heimili um veröld víða þurfa að neita sér um margvíslegar nauðsynjar á tímum gífurlegra verðhækkana og verðbólgu. „Með öllu er ótækt að heimsbyggðin þurfi lengur að lúta boðvaldi hagfræðinga og stefnusmiða sem neita að horfast í augu við raunveruleikann og fylgja fræðikenningum sem glatað hafa öllum trúverðugleika,” segir Luca Visentini.
Frétt af vef Alþýðusambandsins.