„Fyrst Dagur hefur birt tölvupóstssamskipti okkar opinberlega er réttast að ég geri það líka“

María Sigrún Hilmarsdóttir fréttakona svarar Degi B. Eggertssyni, fyrrverandi borgarstjóra, fullum hálsi í pistli sem hún birtir á Facebook. Fyrr í dag hjólaði Dagur í hana, líkt og Samstöðin greindi frá. María Sigrún birtir samskipti hennar við Dag en fyrr í dag hafði Dagur gert það sama til að koma höggi á hana.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Maríu Sigrúnar í heild sinni.

Fyrrverandi borgarstjóri Dagur B. Eggertsson segir í stöðufærslu á fb-síðu sinni að fréttaskýring mín sem birt var í Kastljósi á mánudagskvöld hafi verið einhliða, ýkjukennd og í mikilvægum atriðum röng. Hér eru svör mín við því.

Dagur segir rangt farið með fjölda íbúða í þættinum. Það kom fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg sjálfri að til stæði að byggja a.m.k. 500 íbúðir á þessum lóðum auk 200-300  í Stekkjarbakka 4-6. Sjá hér:

Dagur segir virði byggingaréttarins ofmetið í þættinum. Ég leitaði til verktaka og fasteignasala sem mátu virði byggingarréttar á lóðunum á bilinu 7-13 milljarða. Eins og fram kom í þættinum fer verðmætið eftir því hversu mikið byggingarmagn verður samþykkt. Það er rétt hjá Degi að tölur um áætlað byggingarmagn á reitunum hafa verið á reiki. Sumar hafa lækkað en það er fyrst og fremst vegna andmæla íbúa sem búa í grennd við lóðirnar. Virðið eykst með tíma og metnaður olíufélaganna stendur til að hámarka það. Nú eru 3 ár liðin frá undirritun samninganna. Virði byggingarréttarins á lóðum bensínstöðvanna mun á endanum líta dagsins ljós og dæmi þá hver fyrir sig. Hér er dæmi um lóðir sem hækkuðu um milljarða á tveimur og hálfu ári.

Dagur setur út á upplýsingar sem vísað er til í þættinum úr fjárfestakynningum olíufélaganna og fasteignaþróunarfélaga þeirra. Ég hef þessar fjárfestakynningar undir höndum frá Festi, Högum og Skel þar sem sjá má væntingavirði lóðanna og tilfærslu virðis þeirra milli félaga í þeirra eigu. Í þær var vísað í Kastjósþættinum.

Dagur gerir í fræslu sinni athugasemdir við að viðtalið hafi verið langt. Leitt að honum gremjist það en þar var ég fyrst og fremst að gefa honum fullt svigrúm, tíma og tækifæri til að svara þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á samninga borgarinnar við olíufélögin.

Fundarsalur borgarráðs er að mínu mati ekki drungalegur eins og Dagur segir í færslu sinni. Þvert á móti finnst mér hann bjartur með stórum gluggum sem snúa til austurs. Viðtalið var tekið milli kl.11 og 12.30, föstudaginn 5. apríl.

Dagur birtir tölvupóstsamskipti okkar opinberlega. Það er ný upplifun fyrir mig. Hann gerir athugasemd við að ég hafi ekki greint frá innihaldi póstsins í þættinum þar vísar hann í lið í samþykktinni sem hann segir alveg skýra að „einungis verði krafist greiðslu gatnagerðargjalda af hendi lóðarhafa“. Hvers vegna stóð ekki skýrar í samþykktinni að til stæði að gefa olíufélögunum byggingarrétt fyrir milljarða? Hvers vegna vann borgin ekkert kostnaðarmat og ekkert lögfræðiálit áður en menn settust við samningaborðið?

Reykjavíkurborg sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem segir að „alvarlegar staðreyndarvillur“ séu í umfjöllun minni. Þær eru hraktar hér að ofan en við má mæta eftirtöldu:

Fordæmi eru fyrir að sveitarfélög taki til sín lóðir þegar leigutími rennur út og dómar þess efnis hafa fallið á öllum dómsstigum og eru fordæmisgefandi að mati lögfræðinga sem ég leitaði til. Það hefur gerst og heldur áfram að gerast sbr.

Í gögnum máls er hvergi að finna neitt mat á því að reyna þessa leið borgarbúum til hagsbóta á móti því að gera það ekki eins og fram kom í þættinum.

Hvergi í þættinum var talað um að borgarráð væri í sumarfríi heldur var frá því greint að samningarnir hefðu verið samþykktir í atkvæðagreiðslu í borgarráði þegar borgarstjórn var í sumarfríi. Stór mál eru alla jafna tekin fyrir í borgarstjórn. Ég hef ekki fengið skýringar á því hvers vegna samningur borgarinnar við olíufélögin teldist ekki til þeirra.

Fyrst Dagur hefur birt tölvupóstssamskipti okkar opinberlega er réttast að ég geri það líka. Hér er svör hans við frekari fyrirspurnum mínum eftir að viðtalið var tekið.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí