„Það er eins og það ágæta fólk sem kemur að þessari þingsályktunartillögu hafi bara alveg gleymt að hugsa,“ skrifar Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur og doktor í líf og læknavísindum við Háskólann í Reykjavík á Facebook um þingsályktunartillögu um heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.
„Þessi þingsályktunartillaga ber því miður keim af popúlisma og vanþekkingu á hvernig vísindi og rannsóknir virka”, segir Hafrún. „Ég þekki suma af þeim sem eru skráðir fyrir þessari tillögu og ég veit að þar fer klárt og gott fólk. Það hefur bara ruglast aðeins þegar það setti nafn sitt á þessa tillögu.”
Hafrún skrifaði pistil á Facebook sem hún kallar Rant fyrsta ársfjórðungs – Langloka um hugvíkkandi efni.
Biður fólk um að róa sig
Hafrúnu finnst umræðan um þessi efni undarleg og segir að af umræðunni í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að dæma mætti halda að hér væri búið að finna lausn á geðröskunum og hér sé bara lykilinn af hamingju heimsbyggðarinnar.
Hún viðurkennir að fjölmörg lyfjafyrirtæki séu komin eitthvað áleiðis í rannsóknum sínum á hugvíkkandi efnum en eins og staðan sé núna samkvæmt Kára Stefánssyni sé enn ekki búið að sýna fram á að efnin hafi nein meiriháttar áhrif á bata geðsjúkdóma.
„Það sé vissulega möguleiki að 3ja fasa rannsóknir (sem nú eru í gangi) leiði í ljós að þessi efni hafi áhrif til bata, umfram lyfleysu, á ákveðnar geðraskanir og ef svo verði þurfi einnig að kanna hvort áhrifin séu betri en af notkun SSRI lyfja og vel skipulagða hugrænna atferlismeðferða,“ skrifar hún.
Hafrún ítrekar að þetta þurfi bara að hafa sinn gang, það sé tímafrekt en algjörlega nauðsynlegt að gera rannsóknir á nýjum lyfjum. Hún biðlar því til fólks að róa sig og bíða eftir niðurstöðum rannsókna fremur en að hefja inntöku á einhverju bara af því það virðist vera vinsælt.
Henni finnst það sæta furðu að margt af því fólki sem hún sér dásama þessi efni og tala fjálglega um gagnsemi þeirra vera jafnvel sama fólkið og taldi gjörsamlega galið að láta bólusetja sig við Cóvid því það var ekki búið að rannsaka Cóvid-bóluefnin nægilega mikið.
„Þess ber að geta að bóluefnin fóru í gegnum alla þrjá fasa lyfjarannsókna en ekki er búið að klára þriðja fasa rannsókn hvað hugvíkkandi efnin varðar. Mótsögnin sé því algjör,” segir Hafrún.
Alþingi þurfi að hysja upp um sig
Hún segir að lagaramminn hérlendis sé þannig að það séu engar sérstakar hindranir í að rannsaka hugvíkkandi efni og að engin þörf sé á að breyta neinum lögum né reglugerðum. Varðandi það að Ísland eigi að vera leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni segir hún það í fyrsta lagi ekki vera hlutverk alþingis og alþingismanna að hafa bein áhrif á hvaða rannsóknir vísindamenn hérlendis geri. Það sé einhver stæk forræðishyggja í því og það mætti draga hugtök eins og akademískt frelsi inn í þá umræðu. Alþingi eigi að passa upp á að umhverfi til rannsókna sé almennt til sóma hérlendis en ekki koma með tillögu um að tiltekið fólk á Landspítalanum eða við háskólana fari að stunda rannsóknir á einhverju tilteknu efni alveg óháð áhuga þeirra eða getu til að gera þessar rannsóknir. Það fólk sem geti gert þessar rannsóknir hérlendis hafi ekki einu sinni verið spurt, hvort það hefði áhuga, tíma og aðstæður.
„Það hljóti allir að sjá hvað þetta er galin pæling”, segir Hafrún og bætir við „Þessi tillaga lýsir líka einhverju fullkomnu þekkingarleysi á innviðum rannsókna hérlendis. Þeir eru stórlega ofmetnir í þingsályktunartillögunni svo ekki sé meira sagt. Fyrir mér er þetta álíka kjánalegt og að segja að Ísland eigi að vera leiðandi á heimsvísu í keppnishjólreiðum á næsta ári. Ekkert tillit tekið til aðstæðna hér á landi, fámennis eða skorti á fjármagni.” Þá bendir hún áhugasömum að lesa umsagnir um tillöguna sem sé áhugaverð lesning.
Að lokum segir hún Alþingi þurfa að hysja upp um sig. Þetta sé vandræðaleg tillaga en tekur jafnframt fram að hún muni verða himinlifandi, ef í ljós kemur að hugvíkkandi efni reynist, samkvæmt rannsóknum, verulega árangursrík meðferð við geðsjúkdómum. Þá þarf Hafrún eflaust að víkka út hugmyndir sínar um hvað fíkniefni sé og hvar þau séu að finna.
Flutningsfólk þingsályktunartillögunnar sem Hafrún gagnrýnir eru eftirfarandi þingmenn: Vilhjálmur Árnason, Jakob Frímann Magnússon, Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Bergþór Ólason, Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Tómas A. Tómasson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Rætt var um hugvíkkandi efni við Rauða borðið í haust. Hér er viðtal við Árnýju Jóhannesdóttur um grein hennar í Læknablaðinu:
Þá var rætt við Söru Maríu Júlíudóttur um félag áhugafólks um hugvíkkandi efni og ráðstefnu sem haldin verður í Hörpu:
Og þessi efni voru mikið til umræðu í viðtali við Héðinn Unnsteinsson formann Geðhjálpar: