Níu mánaða verkfalli þúsund starfsmanna iðnfyrirtækisins CNH Industrial í Wisconsin og Iowa í Bandaríkjunum lauk loks í gær með samningum. Samningsaðilar hafa ekki viljað tilgreina um hvað var samið, en talið er að það hafi verið allt að 28-38% launahækkun sem kemur til framkvæmda á fjögurra ára samningstíma.
Það er há prósenta, en hafa ber í huga að verðbólga er nú um 6,5%. Til að bæta launafólki slíka verðbólgu yfir fjögur ár þurfa laun að hækka um 28,6%. Að lágmarki tryggja samningarnir kaupmátt miðað við óbreytta verðbólgu en umtalsverða hækkun ef verðbólga lækkar.
CNH Industrial varð til við samruna framleiðenda Case-landbúnaðartækja og hluta af Fíat-keðjunni á Ítalíu, þess hluta sem ekki framleiddi bíla til almenningsnota. Þetta er fjölþjóðlegt félag skráð í Bretlandi. Stærsti eigandinn er Agnelli-fjölskyldan ítalska í gegnum fyrirtæki sem skráð er í Hollandi. Samsteypan kemur sér þar fyrir þar sem skattar eru lægstir og setur verksmiðjur upp þar sem launin eru lægst.
Það gerði kjarabaráttu iðnverkafólks í Bandaríkjunum erfiða og harða. Yfir fólkinu vofði hótun um að færa framleiðsluna annað. Og það var gert tímabundið, sem dró úr skaða samsteypunnar af verkfallinu.
Verkalýðsfélag starfsfólksins hafnað samningstilboði fyrir tveimur vikum áður. Það var mun hærra en tilboðið frá í maí í fyrra, sem hljóðaði aðeins upp á 18,5% launahækkun. Samsteypan bætti við tilboð sitt og loks var samið í gær. Í yfirlýsingu CNH Industrial kemur fram að launahækkunin endurspegli mikinn vilja fyrirtækisins til að ljúka þessu langa verkfalli.
Talsmaður verkalýðsfélagsins sagði í sinni yfirlýsingu að samninganefnd félagsins hafi sýnt hörku allt til enda, þrátt fyrir hótanir vinnuveitanda um að ráða nýtt starfsfólk utan verkalýðsfélaga í stað þess sem var í verkfalli. Ótrúleg samstaða félaga okkar skilaði þessum samningi, segir í yfirlýsingunni.
CNH Industrial er með 37 þúsund manns í vinnu víða um heim. Fyrirtækið gat því haldið áfram að framleiða vinnuvélar þrátt fyrir verkfallið, auk þess sem því tókst að halda hluta verksmiðja sinna í Bandaríkjunum gangandi þrátt fyrir verkfallið. Þetta langa verkfall sýnir því á margan hátt hversu erfitt er fyrir launafólk að berjast við fjölþjóðleg fyrirtæki. Og ekki síst í Bandaríkjunum þar sem fyrirtæki hafa margar leiðir til að sveigja fram hjá verkföllum.
Hagnaður CNH Industrial á þriðja ársfjórðungs 2022 jókst um 22% frá fyrra ári, var 79,4 milljarða íslenskra króna. Uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung er væntanleg í byrjun febrúar.
Þetta verkfall var eitt það lengsta eftir heimsfaraldurinn. Verkafólk víða um Bandaríkin hefur krafist betri kjara og fengið verulegar hækkanir að undanförnu. Ástæðan er bæði skortur á vinnuafli og barátta fólk gegn kaupmáttarrýrnun vegna verðbólgu. Ný verkalýðsfélög hafa verið stofnuð í fyrirtækjum eins og Starbucks og vöruhúsum Amazon. Annar vinnuvélaframleiðandi Deere&Co. sömdu um 10% launahækkun við 10 þúsund starfsmenn eftir mánaðarlangt verkfall 2021.
Umtalaðasta vinnudeila í Bandaríkjunum síðasta árs var þegar um 100 þúsund járnbrautarverkafólk fór fram á að kjör sín yrðu varinn fyrir verðbólgu og boðuðu verkfall. Bandaríska fulltrúadeildin setti þá lög og bannaði járnbrautarverkafólki að fara í verkfall og bar fyrir sig ótta um efnahagslegar afleiðingar. Járnbrautarverkafólkið fékk 711 þúsund króna eingreiðslu og 24% hækkun á launataxta yfir 5 ára samningstíma. Það er samt óánægt með lögin og telja sig hafa verið rænd rétti til að semja um mörg önnur atriði, svo sem um veikindarétt og bættar starfsaðstæður.
Myndin er úr verksmiðjum CNH Industrial.