Foreldrar voru kallaðir á fund í gærkvöld vegna mygluvanda í leikskólanum Maríuborg í Grafarholti en eftir sýnatöku undan gólfdúkum og í veggklæðningu við glugga skólans greindust ummerki um gró/örveruvöxt eða myglu í fjórum sýnum.
Skipta þarf um gólfdúk á tveimur deildum en frístundasvið borgarinnar hyggst mæta vandanum í áföngum. Skólinn var byggður árið 2003 og því alvarlegt að þar skuli finnast svo útbreidd mygla. Hafist var handa við lagfæringar á veggklæðningu við glugga í jólafríinu og verður farið í hluta gólfsins á næstunni. Þó verður síðasti hluti vinnunnar geymdur fram á sumar eða haust þar sem teikni og hönnunarvinna mun einnig þurfa að fara fram.
Það vekur furðu foreldra að skólanum verði ekki lokað og börnunum komið annað á meðan viðgerðir standa yfir. Ein deildin verður lokuð og börnin flutt yfir á aðra á meðan og svo öfugt. Foreldrum sem eiga langveik börn eða börn með undirliggjandi sjúkdóma í skólanum er sagt að þeir þurfi að meta sjálfir hvort börnin geti verið í skólanum á meðan viðgerðir standa yfir eða beðið er viðgerða eða ekki. Frístundasvið borgarinnar reynir því að gera lítið úr vandanum og mörgum foreldrum er ekki rótt en forsvarsmaður leikskólasviðs lofar að ráðfæra sig við heilbrigðiseftirlitið þegar kemur að loftgæðum innanhúss á meðan viðgerð stendur yfir.
Sjá fyrri frétt: Mygla í yfir tuttugu leik- og grunnskólum