Samningar um hversu mikið og lengi verkafólk á að svelta

Samtök atvinnulífsins berjast hatrammlega gegn því að laun fyrir fulla vinnu dugi verkafólki fyrir fæði, klæði og húsnæði. Sé miðað við framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara og meðalleigu fyrir litla íbúð duga full dagvinnulaun samkvæmt algengasta launaflokki Starfsgreinasambandsins fyrir framfærslu fram á 26. janúar næstkomandi. Miðað við bjartsýnustu verðbólguspár mun verkafólkið vera búið með peninginn fyrir 23. nóvember næstkomandi og svelta þá síðustu viku þess mánaðar.

Barátta verkafólks fyrir að eiga í sig og á hefur verið hörð. Þegar verkafólk semur um launahækkanir borgar það líka meira í skatta og gjöld og hækkandi verðlag étur fljótt upp aukið ráðstöfunarfé.

Af grafinu hér að neðan má lesa þróun 6. launaflokks Starfsgreinasambandsins, ráðstöfunartekna og framfærslu frá ársbyrjun 2021 til ársloka 2023 á verðlagi dagsins í dag:

Þarna er miðað við dagvinnulaun samkvæmt 6. launaflokki Starfsgreinasambandsins og dregið frá þeim skattar, lífeyrissjóður og félagsgjöld. Framfærslan er viðmið Umboðsmanns skuldara frá því síðastliðið sumar uppreiknað að verðlagi dagsins. Viðmið umboðsmanns tekur ekki með húsnæðiskostnað né tryggingar og því var sett þarna inn 175 þús. kr. leiga fyrir 50 fm. íbúð á höfuðborgarsvæðinu, 12.500 kr. í rafmagn, hita og hússjóð og 4.000 kr. í tryggingar.

Allan tíma er verkafólk á þessum launum undir hungurmörkum. Tekjurnar duga ekki fyrir útgjöldum og fólkið verður að spara við sig í mat, fötum, tómstundum, ferðalögum eða læknishjálp.

Á verðlagi dagsins náðu samningar SGS að minnka þennan mínus í tæplega 38.500 kr. í nóvember. Það jafngildir því að það vanti framfærslu eftir 24. hvers mánaðar, að fólk svelti síðustu sex til sjö dagana fram að næstu útborgun. Með skattabreytingum og hækkun húsnæðisbóta um áramótin lækkaði mínusinn í tæplega 29 þús. kr. Ef bjartsýnar verðbólguspár ganga eftir verður mínusinn orðinn tæplega 47 þús. kr. í árslok. Verkafólkið verður búið með peninginn um miðjan dag 23. hvers mánaðar og þarf eftir það að lifa á loftinu.

Hér má sjá rauntölur í janúar 2021, 2022 og 2023 og svo desember í ár:

Mán.LaunSkattar
& gjöld
ÚtborgaðFram-
færsla
Mínus
Jan21339.158-67.548271.610-313.894-42.284
Jan22364.158-73.147291.011-333.615-42.604
Jan23417.148-85.886331.262-360.267-29.005
Des23417.148-85.886331.262-380.795-49.533

Þarna eru full laun samkvæmt lægsta aldursþrepi 6. launaflokks SGS, skattar, iðgjöld í lífeyrissjóð og félagsgjöld, framfærsla samkvæmt Umboðsmanni skuldara, leiga fyrir 50 fm. íbúð, hiti, rafmagns, hússjóður og tryggingar. Þarna eru engin óvænt útgjöld og engin óþarfa eyðsla, mánudagur alla daga.

Frá janúar 2021 til desember 2023 hækkuðu launin um tæplega 77.990 kr. Skattar og iðgjöld hækkuðu um 18.338 kr. svo ráðstöfunartekjurnar hækkuðu aðeins um 59.652 kr. Yfir tímann hækkaði framfærslan að frádregnum húsnæðisbótum um 66.901 króna svo staða fulvinnandi verkafólks á þessum launum versnaði um 7.249 kr. í nafnkrónum talið.

En þarna brenglar verðbólgan myndina. Ef við færum þetta yfir á verðlag dagsins í dag er staðan þessi:

Laun hækkuðu um 4.238 kr.
Skattar og gjöld hækkuðu um 3.500 kr.
Ráðstöfunartekjur hækkuðu því aðeins um 738 kr.
Húsnæðisbætur hækkuðu hins vegar um 1.077 kr.
Svo afkoman batnaði um 1.815 kr.
En er eftir sem áður -46.907 kr. undir framfærsluviðmiðum.

Hér er miðað við bjartsýnar verðbólguspár. Ef verðbólgan fer ekki hratt niður verður staðan enn verri í árslok.

Þetta er árangur af kjarabaráttu í þrjú ár. Í byrjun tímabilsins hækkaði taxtinn um 24 þús. kr. samkvæmt lífskjarasamningnum og síðan um 25 þús. kr. fyrir ári. Við þetta bætist síðan hagvaxtarauki upp á 23.500 kr. samkvæmt lífskjarasamningi og svo árangurinn af skammtímasamningi SGS sem skilaði 29.490 kr. til viðbótar inn í 6. launaflokk. Eftir stendur nánast engin hækkun á ráðstöfunarfé, aðeins 738 kr. á núvirði. Sú litla kjarabót sem fólk fær er tilkomin vegna hækkunar húsnæðisbóta, sem nær ekki að vega upp hækkun húsaleigu á tímabilinu.

Með þessum árangri getur fólk í 6. launaflokki SGS vænst þess að eiga fyrir mat út mánuðinn eftir rúm 77 ár, snemma á næstu öld. Það er langur tími fyrir fólk sem er í raun að berjast upp á líf og dauða í kjarabaráttunni, að laun undir hungurmörkum muni vara næstu þrjár kynslóðir. Það er ljóst að láglaunastefnan, að halda fólki undir hungurmörkum þrátt fyrir fulla vinnu, er inngróin í samfélagið og ekki að sjá að við séum að vinna okkur frá henni.

Í enskumælandi löndum er fólk í þessari stöðu kallað working poor. Oftast er notast við vinnandi fátækt á íslensku. Það hugtak á við um fólk sem vinnur fulla vinnu en á ekki í sig og á. Launin duga verkafólkinu ekki til að endurnýja sig líkamlega, félagslega og andlega. Annað hvort þarf það að borða minna og ganga þannig á eigin líkamlega heilsu eða vinna meira og ganga á frítíma sinn eða svefn. Og ganga á líkamlega og andlega heilsu, skerða lífsgæði sín með því að draga úr félagslífi og andlegri næringu.

Þetta er raunveruleiki félagsfólks Eflingar og örugglega fleira félagsfólks Starfsgreinasambandsins, þótt hér hafi verið miðað við leiguverð á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi raunveruleiki er hins vegar ekki kynntur í fréttum eða umfjöllun um kjaramál. Þar er hinum vinnandi fátæku, þeim sem vinna fulla vinnu en fá ekki fyrir það laun sem duga fyrir fram færslu, stillt upp sem spellvirkjum sem setja samfélagið í hættu. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins eru aldrei spurðir um hvað þeim gengur til með að greiða fólki lægri laun en duga fyrir framfærslu, lægri laun en fólk þarf til að endurnýja sig svo það geti sinnt vinnu sinni. Fyrirtækjaeigendur eru aldrei spurðir um ábyrgð sína af vaxandi örorku, sem í flestum tilfellum má rekja til slits vegna mikillar vinnu og andlegs álags vegna fátæktar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí