Verðbólgan eykur hraðann þrátt fyrir útsölur

Ekkert lát er á verðbólgunni, eins og hún birtist í mælingu Hagstofunnar á neysluvísitölu, þrátt fyrir frost á fasteignamarkaði og janúarútsölur. Vísitalan hækkar um 0,85% frá desember. Það jafngildir 10,7% verðbólguhraða. Síðustu tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 9,9%. Vonir um að verðbólgan lækkaði niður í forsendur kjarasamninga eru brostnar.

Það dregur oftast úr verðbólguhraðanum í janúar vegna útsala. Svo er ekki nú. Nú gefur verðbólgan í og mælist á meiri hraða en verið hefur síðan í sumar, áður en Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri fór að halda því fram að vaxtahækkanir sínar væru farnar að bíta. Síðan þá hefur fasteignamarkaður hægt á sér og verðhækkanir stöðvast. Eftir sem áður mælist vaxandi verðbólguhraði sem segir að aðrir hlutar vísitölunnar eru komnir á enn meiri ferð. Á meðan að almenn verðbólga er á niðurleið í Evrópu, það er verðbólga án hækkunar á fasteignamarkaði, þá er hún á uppleið hér.

Opinber gjöld og gjaldskrárhækkanir ýta verðbólgunni upp auk hækkunar á mat og innfluttum vörum. Póstsendingar hækka t.d. um 13,7%, tóbak um 9,1%, hitaveita um 6,0%, rafmagn um 4,6% og félagsleg þjónusta um 5,7%. Bílar hækka um 9,8%, flutningar um 6,6% og mjólk og grænmeti um 4,4%. Þetta er hækkun milli mánaða, ekki árshækkun. Það er því nóg eldsneyti þarna til að knýja áfram mikla hækkun verðbólgunnar.

Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir 5,6% verðbólgu á þessu ári og sú spá var lögð til grundvallar kjarasamningi Starfsgreinasambandsins. Fáir höfðu trú á að sú spá héldi þegar samningarnir voru gerðir og líklega er enginn eftir sem enn heldur í þá von. Það þarf sögulegan viðsnúning verðbólgu til að það gangi eftir. Vanalega fer verðbólgan hraðar upp en hún fer niður, hún getur rokið upp en síðan tekur langan tíma fyrir hana að sjatna.

Ef verðbólgan á að vera 5,6% á þessu ári þyrfti hækkunin milli mánaða að vera að meðaltali um 0,45%. Hún er nú næstum á tvöföldum þeim hraða. Ef verðbólgan ætti að lækka í jöfnum skrefum út árið þyrfti verðbólgan að vera svo til horfin í árslok. Enginn spáir því.

Verðbólgan étur kaupmáttinn. Hækkunin vísitölunnar í janúar merkir að tæplega 3.500 kr. klípast af þeim sem fá laun samkvæmt 6. taxta Starfsgreinasambandsins. Til viðbótar við rúmlega 2.700 kr. í desember og rúmar 1.000 kr. í nóvember. Um 7.200 kr. eru farnar af rúmlega 33.400 kr. hækkun útborgaðra launa. Þar af var tæplega 8.500 kr. vegna hagvaxtarauka sem ekki er hugsaður sem vörn gegn verðbólgu heldur hlutur launafólks í aukinni framleiðni. Verðbólguvörn samninganna var því 24.950 kr. hjá fólki á 6. taxta. Á þremur mánuðum eru 7.200 kr. farnar. Eftir standa 17.750 kr. fyrir þá tólf mánuði sem eftir eru. Ef verðbólgan helst jafn há og í janúar þá verður vörnin farin í maí. Og verðbólgan mun þá éta kaupmáttinn næstu átta mánuði niður fyrir það sem hann var fyrir samningana.

Það sem hefur drifið verðbólguna á Íslandi eru einkum fimm atriði. Í fyrsta lagi fasteignamarkaðurinn, sem nú er í frosti eftir vaxtahækkanir Seðlabankans. Næst er það innflutt verðbólga sem annars vegar kemur til af verðhækkunum erlendis og hins vegar af lækkun gengis krónunnar. Verðlag erlendis hækkar nú minna en áður en krónan er hins vegar enn að gefa eftir. Í þriðja lagi kemur hækkun gjaldskrár opinberra aðila sem ruku upp í janúar, ekki síst vegna þröngrar fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem hafa fáa valkosti til að mæta auknum útgjöldum. Þá kemur innlend eftirspurnarverðbólga sem er drifin áfram af kaupmætti og sparnaði hinna betur stæðu. Þar sem það er blússandi hagvöxtur og einstakt góðæri í fyrirtækjarekstri er ekkert sem bendir til að þetta sé að gefa eftir. Og í fimmta lagi er það hagnaðardrifin verðbólga, það er sókn fyrirtækja í hámarkshagnað sem ýtir verðlagi upp að þeim mörkum að velta fyrirtækjanna fari að dragast saman og hagnaður að minnka.

Þótt fasteignamarkaðurinn sé frosinn þá er ekki að merkja að hin atriðin hafi gefið eftir. Þvert á móti hafa þau gefið í og vegið upp verðstöðnun á fasteignamarkaði.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí