Almenningur byrgir sig upp af eldsneyti og matvöru

Frá og með hádegi á morgun hefst að óbreyttu verkfall hátt í 500 Eflingarfélaga sem starfa við þrif á hótelum og rúmlega 70 vöruflutninga-og olíudreifingabílstjóra. Verkfallið mun bíta verulega ef af verður en almenningur og fyrirtæki hafa verið að byrgja sig upp af bæði bensíni og matvöru.

Flugsamgöngur ættu að halda áætlun í bili þrátt fyrir verkföll olíubílstjóra en Isavia situr að eldsneytisbirgðum fyrir sjö til tíu daga. Bensínstöðvar og verslanir eiga birgðir fram að eða rétt yfir helgi. Verslanir gætu þurft að loka í næstu viku vegna vöruskorts og hafa raðir verið að myndast við bensínstöðvar síðustu daga.

Þó nokkrar undanþágubeiðnir eru byrjaðar að berast Eflingu vegna yfirvofandi verkfalla og hefur félagið þegar rætt við lögreglu og slökkvilið til að tryggja almannavarnir og átt í óformlegum viðræðum við vegagerðina.

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segist ekki útiloka að setja verði lög á verkföllin og vonast hann eftir því að nýr ríkissáttasemjari eða sáttanefnd verði skipuð í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsráðherra hefur þó enn ekki tjáð sig um málið í dag en nú standa yfir málefnadagar í þinginu svo þingmenn eru dreifðir um kjördæmin. Samkvæmt dómsmálaráðherra hefur ríkisstjórnin ekki fundað um yfirvofandi verkföll Eflingar og því ekki komið til tals að stöðva þau með lagasetningu.

Á fimmtudaginn hefst atkvæðagreiðsla hjá félaginu um verkföll sem ná yfir alla starfsmenn á veitinga- og gistihúsum, ræstingar- og öryggisgæslufyrirtækjum. Mun þeirri atkvæðagreiðslu ljúka á mánudaginn og ef vinnustöðvun verður samþykkt mun enn víðtækara verkfall hefjast þann 28. febrúar. Það verkfall mun bíta enn harðar í ferðaþjónustuna.

Bjarnheiður Hallsdóttir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar fer hörðum orðum um verkföll Eflingar í skoðanagrein á Vísi í dag. Þar líkir hún verkföllum við náttúruhamfarir, stríðsrekstur, farsóttóttir og hryðjuverkaógn og gerir Eflingu ábyrgt fyrir þeim hræðilegu hamförum sem verða við það að lægst launaða fólk landsins krefjist réttlátari kjara.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí