Áskriftir komnar yfir milljón

Það gerðist í dag að mánaðarleg félagsgjöld í Alþýðufélaginu fóru yfir eina milljón króna, en félagsgjöldin eru einskonar áskrift að Samstöðinni. Að þessu tilefni mun Samstöðin auka við starfsemina um mánaðamótin og taka næstu skrefin í uppbyggingu þessa frétta- og umræðumiðils.

Samstöðin opnaði fréttavef í haust á vef sínum samstodin.is. Heimsóknir inn á vefinn hafa hægt og bítandi aukist síðan þá. Þá var líka bætt fréttayfirliti við Rauða borðið, sem sent er út á virkum dögum frá mánudegi til fimmtudags. Viðtals- og umræðuhluti þáttarins var svo aukinn um áramótin og ýmsum föstum liðum bætt inn í hann. Á næstunni mun Rauða borðið þróast enn frekar í að verða fréttaþáttur Samstöðvarinnar.

Fyrir skömmu var opnað svæði á vef Samstöðvarinnar fyrir skoðanagreinar, sjá hér: Skoðun.

Þættir Rauða borðsins, Rauðs raunveruleika, Hinnar Reykjavíkur og Work in Progress eru sendir út á síðum Samstöðvarinnar á Facebook og youtube og eru flestir aðgengilegir á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Nálgast má einstaka þætti á vef Samstöðvarinnar: Þættir. Einstök viðtöl má nálgast á youtube: Vídeó.

Þetta á líka við um nýjasta þátt stöðvarinnar: Samtal á sunnudegi. Þar er fjallað um tiltekið málefni í nokkrum þáttum undir leiðsögn sérstaks lóðs. Fyrsta syrpan er um verkalýðsmál undir leiðsögn Sigurðar Péturssonar sagnfræðings.

Meðal þess sem mun gerast í mars er að útsendingar verða fleiri og sent út víðar. Fréttum á vef Samstöðvarinnar verður fjölgað og skoðanahlutinn efldur.

Þetta er hægt vegna aukins stuðnings félaga í Alþýðufélaginu sem hafa nú skráð sig fyrir félagsgjöldum sem jafngilda einni milljón króna á mánuði í áskrift til Samstöðvarinnar. Eins og fram hefur komið lætur Sósíalistaflokkurinn helminginn af ríkisstyrk til flokksins renna til Samstöðvarinnar, í ár um 1.022 þús. kr. á mánuði. Því er ekki langt að bíða að framlag félaga í Alþýðufélaginu fari yfir framlag flokksins.

Félagsgjöld í Alþýðufélaginu eru 2.000 kr. en félagar geta kosið að greiða meira. Þau sem hafa áhuga á að styðja Samstöðina og gerast félagar í Alþýðufélaginu geta skráð sig hér: Skráning.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí