Borgarfulltrúi Sósíalista gagnrýnir hátt fermetraverð á smáhýsum borgarinnar

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalista segir þjónustu við íbúa í húsnæðisúrræðum á vegum borgarinnar vera óásættanlega, fermetraverð sé allt of hátt og nái ekki að dekka hitaveitukostnað. Þá sé brugðist allt of seint og illa við umkvörtunum um hluti eins og að hitalaust sé í húsinu.

Sanna segir það sláandi hvað fermetraverðið sé hátt enda séu þarna manneskjur oftast að koma úr viðkvæmri stöðu. Hún bendir á að fermetraverð fyrir smáhýsin sé 3.900 krónur, sem sé meira en meðalverð á litlum íbúðum í Reykvavík.   Þarna eigi fólk að vera komið í skjól sem sé svo kannski ekkert skjól. Þá segir hún ekki vera brugðist við erindum þessa fólks. „Það er bara ömurlegt að heyra þetta, að það sé verið að borga þetta háa leigu, sem nær samt ekki einu sinni að dekka hita og þessa grunnþætti sem við þurfum til að hafa okkar heimili í lagi. Það þarf greinilega að stafa hluti ofan í þau sem bera ábyrgð á þessu og segja: Ef það kemur ábending um að íbúð sé hitalaus, þá verður brugðist við því samdægurs. Það sé bara skýrt að brugðist sé strax við ábendingum frá leigjanda. Ekki í vikunni, í mánuðinum eða segja bara: Móttekið. Heldur sé bara skýrt hvað eigi að gera þegar ábendingar koma fram” segir Sanna.

Á Facebook-síðu sinni bendir hún á að fermetraverð fyrir smáhýsin sé 3.900 krónur, sem sé nokkuð yfir meðalverði á litlum íbúðum í Reykjavík.

Fréttastofa Vísis birti um helgina viðtal við Pétur Geir Óskarsson, sem býr í einu af smáhýsum Reykjavíkurborgar á Granda en þau eru úrræði borgarinnar fyrir vegalaust fólk. Í viðtalinu lýsir Pétur Geir slæmum aðstæðum í smáhýsunum sem kemur fram í miklum ágangi óboðinna gesta sem hrekja jafnvel íbúa af heimilum sínum auk þess sem nístingskuldi hafi herjað á þau í vetur. Þá segist hann hafa hætt að borga leigu á tíman til að mótmæla ástandinu en leigan sé 97 þúsund krónur með húsgjaldi.

Sanna Magdalena segist einnig hafa heyrt af því að aðrir leigjendur hjá Félagsbústöðum glími við að erindum sé sinnt seint og illa.

„Þetta er bara eitthvað sem þarf að laga algjörlega og bregðast við, þannig að fólk sé ekki að bíða eftir einhverju. Það þarf að passa að heimilið sé í lagi.“ segir hún.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí