„Eftir stendur að íslensk stjórnvöld aðstoða ekki við fjölskyldusameiningar frá Gaza en Norðurlöndin gera það hins vegar,“ segir Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Rúv, í svari við fyrirspurn frá Samstöðinni.
Athygli vakti þegar Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra krafðist þess um helgina að Rúv eyddi frétt um að hún og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hölluðu réttu máli er kæmi að aðstoð Norðurlandanna gagnvart þolendum á Gaza.
Samstöðin greindi frá því að samkvæmt heimildum hygðist Rúv ekki eyða frétt sinni, en fáheyrt er að ráðherra fari fram á að fréttum sé eytt.
Með svörum fréttastjórans er staðfest að Rúv stendur við frétt sína. Heiðar Örn segir að hins vegar sé búið að bæta við fréttina athugasemdum Guðrúnar. Sem ekki breyti því sem fyrr segir að íslensk stjórnvöld aðstoði ekki við fjölskyldusameiningar með sama hætti og hin Norðurlöndin og þykir mörgum til vansa, enda hefur mátt skilja að Ísland sé með sömu stefnu í málinu og skandínavísku ríkin. Á sama tíma horfa mörg fórnarlömb vonaraugum til Íslands um hæli.
Ísland var í hópi fyrstu ríkja að viðurkenna sjálfstæði Palsestínu. Margt bendir til að Ísraelsmenn séu að fremja þjóðarmorð á palestínsku þjóðinni. Jafnt stjórnmálafræðingar sem fréttaskýrendur á fjölmiðlum segja vaxandi andúð hér á landi í Sjálfstæðisflokknum gagnvart útlendingum.