Í umræðum um félagslegt húsnæði í Reykjavík var farið yfir fjölda þeirra sem eru á biðlista. 895 manns eru að bíða og hefur þeim farið fjölgandi á síðustu árum. Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Velferðarráðs og fulltrúi Samfylkingar sagði það „eðlilegt“ að alltaf væri einhver hópur á biðlista. Hún taldi jafnframt ekki þörf á að hækka hlutfall félagslegs húsnæðis.
Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag var umræða hafin að frumkvæði Sósíalistaflokksins um hlutfall félagslegs húsnæðis í borginni. Sanna Magdalena Mörtudóttir oddviti flokksins hóf mál og vildi heyra hvernig meirihlutinn hyggðist stytta biðlista.
Fólki á biðlista hefur fjölgað síðustu ár og 895 manns eru nú á honum. Þar af eru 216 barnafjölskyldur. Hér að neðan má sjá gögn fyrir þann hóp.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður Velferðarráðs tók þá til máls. Í svörum hennar kom fram að ekki stæði til að auka hlutfall félagslegs húsnæðis í borginni, sem nú stendur í 5%. Auk þess taldi hún „eðlilegt“ að hafa fólk á biðlista og virtist því ekki sjá neitt athugavert við þann fjölda sem er á honum.
Borgarfulltrúi Pírata, Magnús Davíð Norðdahl blandaði sér einnig í umræðuna og sagðist sakna þess að sjá umræðuna tekna með „heildstæðum hætti.“ Reykjavíkurborg væri að standa sig betur en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og því ættu borgarfulltrúar Reykjavíkur að þrýsta á þau að gera betur.
Ekki mátti því sjá neinar lausnir í sjónmáli vegna langra biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Meirihlutinn telur best að fulltrúar Reykjavíkur ávíti hin sveitarfélögin á meðan fulltrúi Sósíalista vill að betur sé gert í borginni.