Aðeins hagnaður Eimskipa, eins fyrirtækis, var í fyrra tvöfalt meiri en kostnaður fyrirtækjanna í landinu að ganga að kröfum Eflingar. Eimskip skilaði 12 milljarða króna hagnaði í fyrra. Ætla má að kostnaður allra fyrirtækja þar sem um 21 þúsund Eflingarfólks starfa verði um 6 milljarðar króna verði gengið að kröfum þessa starfsfólks.
Uppgjör Eimskips sýnir hversu mikið góðæri er í fyrirtækjarekstri á Íslandi. Hagnaðurinn var tæplega 6 milljarðar króna 2021 en tvöfaldaðist 2022. Bættur hagur fyrirtækisins kemur allur til eigenda því í uppgjöri félagsins kemur fram að meðallaun starfsmanna hafi verið lægri 2022 en á árinu 2021.
Uppgjör Eimskips er ekki undantekning. Fyrirtæki landsins eru nú að skila uppgjöri fyrir síðasta árs og þar má sjá að rekstur þeirra skilar enn betri afkomu en 2021. Sem þó var frábært ár fyrir eigendur fyrirtækja. Undantekningin nú er uppgjör tryggingafélaga og sumra banka, þar sem verðfall á hlutabréfum hefur áhrif. En fyrirtæki sem eru með starfsemi í raunhagkerfinu eru að skila miklum og vaxandi hagnaði.
Og sá hagnaður gerir kröfur Eflingar dvergvaxnar. Þegar verkföll byrja að hafa umtalsverð áhrif má reikna með að fyrirtækin tapi nánast daglega hærri upphæðum en sem nemur kostnaðinum við að ganga að kröfum Eflingar.