Líklegt að verkföll hefjist aftur – fyrirtækjaeigendur gefa ekkert eftir

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði lítið hafa þokast í viðræðum Eflingar við Samtök atvinnulífsins. Enn er langt á milli. Sem merkir að Samtök atvinnulífsins halda fast í að mæta ekki kröfum Eflingar og ætlast til að félagsfólk kyngi þeim samningum sem SA gerði við Starfsgreinasambandsins.

Eins og Samstöðin hefur fjallað um myndi það kosta fyrirtækin í landinu um 6 milljarða króna að fallast á kröfur Eflingar. Ef verkföll byrja aftur og aukast enn mun tap fyrirtækjanna verða mun meira en sem nemur þessari upphæð, strax á fyrstu dögum verkfallsins.

Í tilfelli Íslandshótela væri kostnaðurinn við að verða við kröfum Eflingar um 85 m.kr. en meðaltals hagnaður fyrirtækisins hefur verið um 2.500 m.kr. árlega á undanförnum árum. Ef hótelin loka eða geta ekki bókað fram í tímann vegna óvissu mun fyrirtækið tapa háum upphæðum. Sjá umfjöllun um stöðuna á Íslandshótelum: Gætu borgað miklu hærri laun en samt grætt á tá og fingri

Ef verkfall skellur aftur á miðnætti á sunnudagskvöld mun starfsfólk Íslandshótela og Berjaya Hotels leggja niður vinnu og bílstjórar hjá Olíudreifingu, Skeljungi og Samskipum. Niðurstaða í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun hjá starfsmönnum annarra hótela og gististaða, ræstingar- og öryggisfyrirtækjum liggur fyrir á mánudagskvöld.

Samstöðin hefur bent á að kröfur Eflingar munu ekki hýfa starfsfólkið upp í það sem ætla má að dugi fyrir framfærslu. Laun þess í dag eru langt undir þessum mörkum og samningar Starfsgreinasambandsins ná ekki að bæta stöðuna mikið.

Það má því ætla að pólitísk rök liggi að baki afstöðu SA fremur en efnahagsleg. Samtökin velja verkföll sem kosta fyrirtækin miklu meira en samningar. Markmið þeirra er líklega að ýta á stjórnvöld til að stöðva verkföllin, annað hvort sáttasemjara með miðlunartillögu eða ríkisstjórn og Alþingi með lögum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí