Aukin harka af hálfu Samtaka atvinnulífsins ber með sér að þar á bæ sé það metið svo að nú sé lag, að verkalýðshreyfingin sé tvístruð og ekki í stakk búin að standa sameinuð gagnvart árásum fyrirtækjaeigenda. Þetta var mat viðmælenda við Rauða borðið, sem búa yfir reynslu og þekkingu af verkalýðsbaráttu. En mat þeirra var jafnframt að svona árásir gætu einmitt sameinað hreyfinguna.
Þeir komu að Rauða borðinu Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis, Kristján Þórður Snæbjarnarson forseti ASÍ og Sigurður Pétursson sagnfræðingur og sérfræðingur í verkalýðssögu. Þeir voru sammála um að boðað verkbann Samtaka atvinnulífsins væri sögulegt og sérstakt. Það hefði ekki gerst áður að samtök fyrirtækjaeigenda sendi yfir tuttugu þúsund manns heim launalauss vegna kjaradeilu við eitt félag.
Sigurður sagði að helst mætti líkja þessu við verkbann sem sett var 1982, stuttu eftir að Þorsteinn Pálsson varð framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, en það verkbann hefði verið stutt og áhrif þess í raun runnið inn í afleiðingar verkfalla. Það væri því erfitt að meta hvaða afleiðingar boðað verkbann hefði, sagan hjálpaði þar ekkert til.
Þeir félagar áttu líka erfitt með að meta afleiðingarnar, hversu fljótt skaði fyrirtækjanna af verkbanni yrði meiri en kostnaðurinn við að verða við öllum kröfum Eflingar. Og töldu verkbannið pólitískt, að markmiðið væri að brjóta forystu Eflingar á bak aftur. Og að baki er líklega trú á að stjórnvöld, annað hvort ríkissáttasemjari með miðlunartillögu eða ríkisstjórn með lögum komi í veg fyrir verkbann.
Enn sem komið er hefur ekki komið yfirlýsing frá heildarsamtökum launafólks, en Kristján Þórður sagðist búast við að verkalýðshreyfingin myndi bregðast við verkbanninu á viðeigandi hátt.
Þórarinn benti á að aukin harka SA gagnvart Eflingu ætti sér hliðstæðu í frumvörpum þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem miðað að því að draga úr réttindum launafólks og draga tennurnar úr verkalýðshreyfingunni. Hann sagði þetta hluta af sömu hugmyndafræði.
Samtalið fór víðar, í raun yfir flesta þætti verkalýðsbaráttunnar í dag, ekki síst þörfina á að byggja hér upp velferðarsamfélag sem styður við kjör almennings. Það má sjá það og heyra í spilaranum hér að ofan.