Ókeypis skólamáltíðir líflína lágtekjufólks í London

Ókeypis skólamáltíðir verða í boði fyrir alla grunnskólanemendur víðs vegar um London í eitt ár samkvæmt áætlunum Sadiq Khan borgarstjóra. Þetta er gert til að auka stuðning við fjölskyldufólk í framfærslukreppunni sem nú ríkir en Khan segir að ráðherrum hafi mistekist allar slíkar ráðstafanir.

Aðgerðin mun taka gildi í september og spara fjölskyldum um 440 pund fyrir hvert barn og gagnast 270.000 börnum. Borgarstjórinn, sem sjálfur fékk ókeypis skólamáltíðir sem skólastrákur, sagðist vonast til þess að aðgerðin myndi draga úr fordómum gegn lágtekjufólki og fátækum en einnig styðja þær fjölskyldur fjárhagslega. Hundruð þúsunda skólabarna búa við fátækt en eiga ekki rétt á ókeypis skólamáltíðum vegna takmarkandi viðmiða í skráningarkerfi stjórnvalda. Þar er miðað við að heimili sé með undir 7.400 pund í tekjur á ári – eftir skatta og án bóta – til að vera gjaldgengt.

Tillagan er fjármögnuð eftir aukinn arð gjalda sem lögð eru á fyrirtæki út frá hagnaði þeirra en hagnaðurinn var meiri í ár en búist var við.

Khan segist ítrekað hafa hvatt stjórnvöld til að útvega ókeypis skólamáltíðir til að hjálpa fjölskyldum í fjárhagskröggum en hann segist þekkja það af eigin raun að ókeypis skólamáltíðir séu líflína. Hann segir máltíðirnar tryggja að foreldrar hafi ekki áhyggjur af því hvernig þeir ætla að fæða börnin sín og komi í veg fyrir að þau séu svöng í kennslustofunni og geti betur einbeitt sér að náminu.

Góðgerðasamtök og verkalýðsfélög hafa fagnað þessu og ýmis samtök og lýðheilsuhópar hvatt forsætisráðherrann Rishi Sunak til að bjóða enn betur.

Kahn mun sækjast eftir endurkjöri á næsta ári sem borgarstjóri Lundúna sitt þriðja kjörtímabil.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí