Samtök atvinnulífsins sættir sig ekki við nýja miðlunartillögu frá Ástráði Haraldssyni setts ríkissáttasemjara ef í henni er gengið til móts við kröfur Eflingar. Miðlunartillaga Aðalsteins Leifssonar var í reynd óbreyttar kröfur SA. Efling hafnaði þeirri tillögu og fékk henni hnekkt. Nú er það SA sem er þversum, getur ekki sætt sig við að Efling fái nokkuð út úr verkföllum sínum.
„Í gærkvöld varði samninganefnd Eflingar hátt í 5 klst. í bið eftir því hvort samninganefnd atvinnurekenda (SA) myndi leyfa settum sáttasemjara að leggja fram svokallaða miðlunartillögu í deilu Eflingar og SA. Biðin var árangurslaus,“ skrifar Stefán Ólafsson sérfræðingur Eflingar og meðlimur í samninganefndinni á Facebook í morgun.
„Við dagslok var það mér umhugsunarefni, hversu lengi fólk sem hefur milljónir í laun á mánuði getur rætt um eitt þúsund króna launahækkun til verkafólks – og það án árangurs!,“ heldur Stefán áfram. „Aurasálin er vissulega verðugt viðfangsefni fyrir sálfræðinga!“
Það að lagfæra launatöflur er þó ekki það eina sem stendur í samninganefnd SA. Þær lagfæringar snúast um að flytja til hækkanir samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambandsins svo þær komi fyrr til þeirra sem eru með minni starfsaldur. Þetta kemur á sama stað niður fyrir fyrirtækin þar sem Eflingarfólk er almennt með lægri starfsaldur en verkafólk á landsbyggðinni. Eflingarsamningurinn myndi þá hækka launakostnað fyrirtækjanna jafn mikið og samningur SGS þótt hækkanirnar kæmu fyrr.
Það sem stendur í SA er að Ástráður vill að samningurinn taki gildi frá og með 1. nóvember, eins og samningur SGS. Samtök atvinnulífsins hafa viljað halda því til streitu að félög sem fari í verkfall fái ekki afturvirka samninga. Með því að fallast á að Ástráður leggi fram miðlunartillögu sem feli í sér afturvirkni væri SA að fallast á að félög sem fara í verkföll fái slíka afturvirkni.
Þetta er hnúturinn, hnýttur af SA. Efling má ekki fá afturvirkni og Efling má heldur ekki fá hækkun umfram Starfsgreinasambandið. Eftir fimm tíma setu í aðskildum herbergjum voru samninganefndirnar sendar heim. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður.