Efling efndi til samstöðufundar í Iðnó í hádeginu í dag sem var vel sóttur og í kjölfarið gengu félagsmenn saman í kröfugöngu að Alþingishúsinu og Stjórnarráðinu þar sem þingmenn og ráðherrar voru hvattir til að koma út og ræða við þá.
Um hádegisbilið tók Sólveig Anna Jónsdóttir á móti félögum sínum í Eflingu á fundi í Iðnó þar sem hún stappaði stálinu í fólk og fór yfir stöðu mála á ensku. Eftir fundinn gekk fólkið saman með kröfuspjöld og gjallarhorn á lofti að alþingishúsinu og stjórnarráðshúsinu og var verkbanni ASÍ mótmælt og ríkisstjórnin krafin viðbragða við árásum SA gegn verkfallsrétti láglaunafólks.
Elísabet Ólafsdóttir sem mætti á samstöðumótmæli Eflingar segir á Facebook í dag „Í morgun var ég æðislega mótfallin því að borga ekki Eflingarfólkinu úr vinnudeilusjóði því það beisikklí stendur í reglum flestra ef ekki allra stéttarfélaga að svo skyldi gert. En! Ég komst að því áðan að það var áætlun SA frá 14. febrúar að tæma einmitt sjóð Eflingar á fimm dögum til að slá eina verkalýðsvopnið af borðinu í næstu langtímakjarasamningaviðræðum sem munu eiga sér stað eftir ár. Efling yrði 20 ár að safna þessum þremur milljörðum sem þau eiga til að senda hópa í verkfall næstu ár. Verkbannið nær yfir 25 þúsund manns. Svo heyrði ég að þau 94% sem kusu verkbann munu ekki framfylgja því. Ekki því þau eru svo góð heldur því þau vilja ekki hagga rekstrinum. Á hverjum degi er maður orðlaus yfir óskapnaðinum hjá SA.”
Formaður Eflingar ítrekaði í dag að hægt væri að ganga frá samningi á einum degi en Sólveig hefur lýst því í viðtölum á Samstöðinni hvernig Efling hefur haft eindreginn samningsvilja fram að þeim degi sem Samtök Atvinnulífsins slitu viðræðum og sögðu þær komnar í algjöran hnút.