Verðbólgan át launin í janúar

Launavísitalan hækkaði um 0,2% í janúar á sama tíma og neysluvísitalan hækkaði um 0,85%. Ef miðað er við að meðallaun séu um 700 þús. kr. jafngildir þetta því að verðmæti þeirra hafi skroppið saman um 4.550 kr. í janúar.

Hækkun launavísitölunnar síðustu tólf mánuði hefur verið 8,6%. Það dugar ekki til, því verðbólgan hækkaði allt verðlag á sama tíma um 9,9%. Ef við reynum að meta þetta til króna og aura þá jafngildir það að verðmæti 700 þús. kr. mánaðarlauna hafi skroppið saman um 9.100 kr. á einu ári.

Ástæða þess að helmingur þessarar skerðingar kemur fram í janúar er að á tólf mánuðunum á undan var gengið frá kjarasamningum Starfsgreinasambandsins, iðnaðar- og verslunarmanna, og hagvaxtaraukinn datt inn í apríl á síðasta ári. Þetta náði að draga úr kjaraskerðingunni, en ekki alveg. Fram undan eru blasa við margir mánuðir án umsaminna launahækkana og þá mun verðbólgan éta upp kaupmáttinn óáreitt.

Launavísitalan heldur utan um laun allra. Þegar og ef Efling og opinberir starfsmenn semja mun hún hækka og líka ef að launaskrið verður. Og lækka ef launaskriðið dregst saman eða ef dregið verður úr yfirvinnu og yfirborgunum. Launavísitalan er því mikið meðaltalstól og lýsir ekki vel stöðu neins, ekki frekar en neysluvísitalan sem dregur saman meðalneyslu almennings og endurspeglar því ekki neyslu neins sérstaks.

Ef við vildum skoða kjör láglaunafólks á vinnumarkaði þyrftum við að miða við launakjör þess sérstaklega og útbúa neysluvísitölu láglaunafólks, sem væri saman sett úr allra mestu nauðsynjum þar sem matur og húsnæði myndi vega þyngst. Þetta fólk hefur ekki efni á öðru, svo naumt skammta fyrirtækjaeigendur launin.

En samanburður á launavísitölu og neysluvísitölu er einskonar kaupmáttarmat for dummies. Þetta er mælikvarðinn sem ráðherrar flagga mest. Eða flögguðu mest þegar þessi mælikvarði sýndi að kaupmáttur væri að aukast á Íslandi. Það er liðinn tíð. Frá síðastliðnu vori hefur verðbólgan étið kaupmáttinn svo að launahækkanir hafa ekki náð að bæta það upp. Og janúartölurnar benda til að svo muni verða áfram, líklega út þetta ár, fram í febrúar á næsta ári þegar nýir samningar eiga að taka gildi.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí