„Samstöðin er í eigu Alþýðufélagsins, sem er opið félag fyrir alla sem greiða félagsgjöld, sem eru einskonar áskrift að Samstöðinni. Samstöðin er því í eigu lesenda, hlustenda og áhorfenda,“ segir Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar.
„Ríkisútvarpið er ekki í eigu hlustenda, heldur ríkisvaldsins. Útvarpsráð er skipað af þingflokkunum og það er samkomulag ríkisstjórnar hverju sinni hver er ráðinn útvarpsstjóri,“ heldur Gunnar Smári áfram. „Svo er Mogginn í eigu stórútgerðarinnar, auðmaðurinn Helgi Magnússon á Fréttablaðið og Hringbraut og auðmannahópar glíma um yfirráðin yfir Sýn sem á Vísi, Bylgjuna og Stöð 2. Heimildin er í dreifðri eign, að einhverju leyti í eigu starfsmanna en að mestu í eigu annarra. Eignarhaldið að Samstöðinni er því sérstakt. Ég man ekki eftir öðru eins í sögunni.“
Fólk getur gengið í Alþýðufélagið og orðið þar með meðal eigenda Samstöðvarinnar hér: Skráning. Félagsgjöld eru frá tvö þúsund krónur á mánuði. Á síðasta aðalfundi voru kjörin í stjórn Alþýðufélagsins Eyjólfur Guðmundsson eðlisfræðingur sem er formaður stjórnar, Guðmundur Hrafn Arngrímsson landslagsarkitekt og formaður Samtaka leigjenda, Gunnar Smári Egilsson blaðamaður, María Pétursdóttir myndlistarkona og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir blaðamaður. Og til vara: Björn Jónasson útgefandi, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir blaða- og fræðikona og Sanna Magdalena Mörtudóttir mannfræðingur og borgarfulltrúi.
Alþýðufélagið á Samstöðina sem er margt í senn. Birtar eru fréttir og viðhorfspistlar á samstöðin.is. Þættir Samstöðvarinnar eru sendir út á youtube og Facebook. Hægt er að nálgast eldri þætti á vef Samstöðvarinnar hér: Þættir. Og einstök viðtöl hér: Viðtöl.
Á hverju virku kvöldi er Rauða borðið sent út, allt að þrír tímar af samfélagsumræðu. Rauða borðið má einnig nálgast á öllum hlaðvarpsveitum.
„Samstöðin hefur byggst upp af tilraunastarfsemi með útsendingar á zoom-spjalli í cóvid-faraldrinum í fréttasíðu, vef, hlaðvarp og sjónvarpsumræður. Næsta skref verður líklega útvarpssendingar,“ segir Gunnar Smári.