Enn stækkar Ísfélagið – nú er það laxeldi

Ísfélag Vestmannaeyja keypti tæplega 9 milljarða króna hlut í Ice Fish Farm, sem rekur umfangsmikið laxeldi á Austfjörðum. Fyrir skömmu keypti Ísfélagið útgerðarfélagið Ramma á Siglufirði. Þessi kaup sína styrk stórútgerðarinnar, sem hefur sjaldan ef nokkurn tímann verið rekin með öðrum eins hagnaði á undanförnum misserum.

Ísfélagið er í meirihlutaeigu Guðbjargar M. Matthíasdóttur, ekkju Sigurðar sonar Einars Sigurðssonar sem kallaður var ríki. Einar hóf útgerð í Eyjum en flutti síðan til Reykjavíkur og var með rekstur víða um land. Ísfélagið byggir því á auð sem varð til í útgerð á síðustu öld en fjárhagslegur styrkur þess hefur vaxið og margfaldast innan kvótakerfisins.

Guðbjörg er stærsti eigandi Morgunblaðsins, sem kalla má málgagn stórútgerðarinnar. Yfirlýst markmið Guðbjargar og útgerðarinnar með kaupunum á blaðinu var að berjast gegn breytingum á kvótakerfinu, inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Til þeirra verka réðu útgerðarmennirnir Davíð Oddsson sem ritstjóra, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins.

Guðbjörg, fjárfestingarfélag Ísfélagsins og eignarhaldsfélag hennar Fram hafa fjárfest í fjölda fyrirtækja öðrum. Hún seldi t.d. hlut sinn í Glitni örskömmu fyrir Hrun og bjargaði sér þá frá gríðarmiklu tapi, tapi sem lenti á öðrum. Hún hefur líka fjárfest í heildsölunni Íslensk-Ameríska, kexverksmiðjunni Frón, niðursuðuverksmiðjunni Ora, prentsmiðjunni Odda, einkasjúkrahúsinu Klíníkinni og fjölda annarra fyrirsækja. Þetta er allt óskráð félög en Guðbjörg hefur einnig átt hluti í skráðum félögum, t.d. Arion-banka og Símanum, en þau félög hafa rekið ákafa eigendastefnu sem snýst um að moka sem mest af eignum félaga til hluthafa.

Eins og Samherja-samsteypan er Ísfélagið meðal allra stærstu og ríkustu fjárfesta á Íslandi. Eigið fé Fram, eignarhaldsfélags Guðbjargar, var um þar síðustu áramót um 24 milljarðar króna. Ríkidæmi Guðbjargar er mun meira en þetta þar sem kvótinn sem hún á í Ísfélaginu er ekki skráður til eignar á raunvirði og sama má segja um eignarhlut hennar í öðrum félögum. Og Guðbjörg hefur líka greitt sér út mikinn arð úr Fram, auð sem ekki er geymdur annars staðar.

Guðbjörg M. Matthíasdóttir er á innfelldu myndinni.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí