Forseti ASÍ skilur ekki áhugaleysi stjórnvalda á afkomu okkar

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, segist í pistli sem hann birtir á vef sambandsins ekki skilja áhugaleysi stjórnvalda um hag almennings. Hann segir að öfgakenndar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans þrýsti meginþorra skuldsettra heimila yfir í verðtryggt lánaumhverfi. 

Hér fyrir neðan má lesa pistil Kristjáns í heild sinni. 

Þá miklu verðbólgu sem nú ríkir má í senn rekja til heimatilbúins vanda en þó að langstærstum hluta til ytri aðstæðna; heimsfaraldurs og innrásar Rússa í Úkraínu. Verðlag hefur hækkað gríðarlega og þar með útgjöld heimilanna í landinu. Mörg heimili eru í miklum vanda og líkt og jafnan áður lenda afleiðingar þessa á herðum þeirra sem síst mega við slíkum áföllum; tekjulágum heimilum, leigjendum og þeim sem nýverið hafa fest kaup á fyrstu fasteign við hátt raunverð. Þessir viðkvæmu hópar standa frammi fyrir bráðavanda af völdum verðbólgunnar sem bregðast þarf við.  Þetta er ekki fólkið sem flýgur í sólina á Tenerife.  

Fjármagnið heimtar sitt 

Á sama tíma er því haldið fram að vextir til þeirra sem eiga fjármagnið megi ekki vera neikvæðir að raunvirði. Þetta þýðir á mannamáli að fólkið sem á fjármagnið má alls ekki þurfa að búa við það að fá minni ávöxtun en sem nemur að minnsta kosti verðbólgu síðustu 12 mánaða! Hvaða rök eru fyrir því að á sama tíma og draga þarf úr þenslu í hagkerfinu og mikill fjöldi fólks berst við að ná endum saman séu fjármagnseigendum færðir enn hærri vextir til þess að geta haldið sinni neyslu áfram?  Minnumst þess að ójöfnuður jókst í kjölfar COVID-faraldurs og kaupmáttur efstu tíundar jókst lang mest í tekjustiganum.  Auðveldlega mætti beita sköttum til að draga úr þenslu og dreifa byrðum á breiðu bökin.  

Það er ekkert eðlilegt við ástand þar sem verðbólga er 10%. Það er ekkert eðlilegt við að raunvextir séu jákvæðir við 10% verðbólgu, hvorki til skemmri né lengri tíma. Því síður er það eðlilegt að fyrirtæki á fákeppnismörkuðum nýti ástandið til að auka álagningu og arðsemi á veðbólgutímum.  

Augljóst er að beita þarf öðrum verkfærum til þess að bregðast við þeim vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir. 

Nú er kominn tími til þess að ríkisstjórnin, efsta lag samfélagsins og stjórnendur fyrirtækja hætti að réttlæta gegndarlausar verðhækkanir. Hugsunin að í lagi sé að hækka verð vegna verðbólgunnar er til þess fallin að auka verðbólgu. Þetta forystufólk þarf að grípa inn í og hjálpa til við að tala verðbólguna niður!   

Seðlabanki á villigötum 

Seðlabanki Íslands er á rangri leið með sífelldum og öfgakenndum stýrivaxtahækkunum. Nýjasta hækkunin er til þess fallin að þrýsta meginþorra skuldsettra heimila yfir í verðtryggt lánaumhverfi. Það mun draga úr virkni stýrivaxta Seðlabankans og þannig ýta undir verðbólgu á komandi mánuðum í stað þess að draga úr henni.   

Sinnuleysi stjórnvalda gagnvart afkomu almennings hefur lengi verið okkur í verkalýðshreyfingunni undrunarefni. Nú verður ekki lengur hjá því komist að takast á við þann mikla og vaxandi vanda sem verðbólga og vaxtahækkanir valda þeim hópum sem verst standa. Málið þolir enga bið.  

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí