Upplýsingaóreiða og afskiptaleysi ríkir vegna Covid-19 sem herjar enn sem aldrei fyrr á landsmenn. Opinberar tölur segja að 13 manns hafi látist í janúar á þessu ári en líklega er um mun stærri hóp að ræða. Af þeim 13 sem um er rætt voru 8 yfir sjötugu og 5 yfir níræðu. Þrátt fyrir að veiran sé að sækja í sig veðrið á ný dregur heilsugæslan úr þjónustu sinni í tengslum við sjúkdóminn.
Samkvæmt tölum frá Landlækni hafa 263 látist af völdum Covid-19 frá upphafi en eins og er ferskt í manna minnum var gripið til samkomutakmarkana og grímuskyldu fyrstu tvö árin til að verja almenning smitum. Þá voru takmarkanir á ferðum milli landa og fólki gert að sýna fram á bólusetningarvottorð.
Það vakti athygli eftir síðustu kosningar þegar Willum Þór Þórsson tók við ráðuneyti heilbrigðismála af Svandísi Svavarsdóttur að algjör stefnubreyting átti sér stað í málefnum faraldursins. Smám saman hafa takmarkanir ein af annarri horfið úr gildi, Covid-göngudeildin lögð niður og erfitt verið fyrir fólk með undirliggjandi sjúkdóma að fá veirulyf ef smit greinist. Einnig hefur orðið til upplýsingaóreiða um á hverra könnu málin eru, fólki vísað á heilsugæslu sem hefur svo ekki haft burði til að bregðast við né getað vísað fólki í réttan farveg.
Fyrstu tvö árin sem faraldurinn geisaði létust 39 manns og var teymi sóttvarna, almannavarna og landlæknis stolt af góðum árangri við að verja íbúa landsins fyrir pestinni. Á síðasta ári fór þó heldur betur að halla undan fæti þrátt fyrir að ekkert hafi verið rætt um það framan af því af þeim 263 sem staðfest er að látist hafa vegna veirunnar hafa 224 látist frá upphafi síðasta árs eða á rúmu ári. Rauntalan er þó talin vera nær 440 sem kemur þó betur í ljós þegar dánarmeinaskrá verður ljós eftir mánuð.
Þá er það alþekkt að að fólk fær covid aftur og aftur því hér hafa formlega greinst 6.500 endursmit. Þrátt fyrir þetta hefur heilsugæslan hætt að bjóða upp á einkennasýnatöku frá og með deginum í dag. Einungis verður boðið upp á sýnatökur fyrir ferðamenn til að mæta skilyrðum annarra landa. Sjúkdómurinn er enn þá tilkinningaskyldur sjúkdómur og lífshættulegri en nokkurtíman en þegjandi samkomulag virðist vera í samfélaginu um að eldri borgararnir okkar sem falla fyrir veirunni megi einfaldlega missa sín.