Opinn borgarafundur um ástandið í samfélaginu sem haldinn var í Breiðfirðingabúð laugardaginn 29. apríl hvetur ríkisstjórnina til að segja af sér og almenning til að rísa upp.
Ályktunin var í tveimur köflum, annars vegar gegn ríkisstjórn og hins vegar hvatning til almennings til þátttöku í samfélaginu.
BURT MEÐ VANHÆFA RÍKISSTJÓRN
Ríkisstjórnin á að segja af sér og boða til kosninga ef hún hefur hvorki getu né hugmyndir til að mæta vaxandi lífskjarakreppu sem grefur undan lífi lágtekjufólks og þrýstir æ stærri hóp almennings niður í fátækt og bjargarleysi. Ríkisstjórn sem skynjar ekki vandann, skilur hann ekki eða er sama um hann á að láta af völdum, strax. Ríkisstjórn sem vinnur gegn hagsmunum þeirra sem standa veikast í samfélaginu en þjónar hinum ríku og best settu er siðlaus, spillt og skaðleg. Hættið að valda skaða. Hættið að níðast á bjargarlausu fólki, hættið að berja á þeim sem geta illa varið sig. Skammist ykkar. Þið njótið ekki trausts almennings. Farið heim.
ALMENNINGUR ÞARF AÐ SÆKJA OG NOTA VALD SITT
Þegar stjórnvöld bregðast hlutverki sínu verður almenningur að rísa upp og hrekja þau frá völdum. Þegar stefna ríkisvaldsins grefur undan fjölskyldum en hyglir fjármagni þá verður almenningur að rísa upp og breyta stefnunni.
Fundurinn hvetur alla til að láta í sér heyra, taka þátt í mótmælum og andstöðu gegn stjórnarstefnunni og fylkjast til starfa í sínum verkalýðsfélögum og almannasamtökum.
Þegar almenningur sefur þá aukast völd auðvaldsins. Þegar almenningur vaknar þá missir auðvaldið völd sín. Og það er forsenda réttlátra samfélagsbreytinga.
Rísum upp og sækjum vald okkar til að byggja upp réttlátt samfélag. Eflum baráttutæki okkar og notum þau. Samfélagið er okkar. Fyrir okkur. Ekkert samfélag er sterkara en þau sem eru veikust. Samfélag sem ver ekki hin veikustu er veikt samfélag, vont samfélag.