Fundur samningsnefnda BSRB og Sambands íslenskra sveitafélaga hjá ríkissáttasemjara lauk rétt fyrir hádegi í dag án nokkrar niðurstöðu. Fundurinn er sá fyrsti síðan BSRB boðaði til verkfalls í kjaraviðræðum. SÍS hefur hafnað kröfu BSRB um afturvirkar launahækkanir frá janúar. RÚV greinir frá þessu.
„Við ákváðum okkar megin að fara hringinn og lýsa því hvernig samtalið hefur verið við félagsfólk og þau eru einróma um það að þetta er misrétti sem þarf að leiðrétta. Þeim er bara mjög misboðið og við vildum koma því skýrt til skila til samninganefndarinnar,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB við RÚV. Hún sagði fundinn hafa verið árangurslausan og lítið samtal á milli fólks.
Allt stefnir því að því að því að starfsmenn grunnskóla, leikskóla og frístundamiðstöðva í fjórum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu fari í verkfall eftir tvær vikur. Sonja Ýr segir að mikill hugur sé í félagsmönnum.
„Eins og ég segi er mikill hugur í okkar fólki og því finnst klárt mál að það hafi verið tímabært að bæta kjör þeirra. En núna náttúrulega tekur steininn úr að sé verið að bæta ofan á misrétti á kjörin þeirra eins og staðan er núna.“