Frumvarp sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins Guðrún Hafsteinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson hafa lagt fram á Alþingi er sagt mismuna börnum eftir því hvort foreldrar þeirra eru í hjúskap eða ekki. Frumvarpið gengur út á það að breyta erfðalögum og lögum um erfðafjárskatt svo foreldrar geti arfleitt börn sín að allt að 10 milljónum króna skattfrjálst.
Frumvarpið hefur verið gífurlega umdeilt og segja margir að með þessu sé einfaldlega verið að hjálpa þeim sem minnsta hjálp þurfa. Fleira má þó finna að frumvarpinu ef marka má umsögn bókhaldsfyrirtækisins KPMG. Fyrirtækið segir að í frumvarpinu kemur hvergi fram hvort þessar 10 milljónir séu bundnar við eitt foreldri eða bæði. KPMG ályktar því að frumvarpið mismuni þeim sem eiga foreldra sem hafa skilið. Í umsögninni segir meðal annars:
„Óljóst er hvort 10 milljón króna hámarkinu er ætlað að taka til beggja hjóna eða hvors þeirra um sig og óljóst er hvort hámarkinu er ætlað að taka til hvers sameiginlegs barns hjónanna eða samanlagt til allra sameiginlegra barna þeirra. KPMG Law ehf. telur þörf á að orðalagi verði hagað þannig að allur vafi verði tekinn af í þeim efnum. KPMG Law ehf. fær ekki séð rök fyrir því að mismuna gjafþegum (börnum) með þessum hætti eftir því hvort foreldrar þeirra eru í hjúskap eða ekki. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu umrædd fjárframlög verða tekjuskattsskyld og jafnframt útsvarsskyld.“