Samkvæmt mælingu Gallup lásu 12,6% landsmanna Heimildina í apríl. Það er eilítið fleiri en lásu Stundina í desember, en þá mældist lestur allra 9,8%. Lestur Stundarinnar var lengst af í kringum 10%. Til samanburðar hefur lestur Bændablaðsins mælst um 25%, Viðskiptablaðsins um 5-6% og lestur Moggans um 17-19%.
Það er ekki gott að bera saman lestur dagblaða og blaða sem koma sjaldnar út. Á meðan fólk er spurt um sama eintakið af Bændablaðinu og Heimildinni er spurt um ný og ný tölublöð af Mogga. Ef spurt væri með sama hætti myndi lestur á Heimildinni og Bændablaðinu mælast minni. Eða Moggans meiri.
Ef við skoðum fólk undir fimmtugu þá lesa um 8% Heimildina, um 15% Bændablaðið, um 9% Moggann og um 5% Viðskiptablaðið. Aftur þarf að hafa í huga að spurt er með mismunandi hætti.
Lestur á vef Heimildarinnar er ekki að aukast. Hann var fyrst mældur í febrúar og voru þá vikulegir lesendur um 15 þúsund en í síðustu mælingu voru þeir nær 14 þúsund. Til samanburðar eru lesendur á vef Ríkisútvarpsins um 90-100 þúsund, svipað og var á vef Fréttablaðsins áður en honum var lokað. Vikulegir gestir á vef DV eru um 120 þúsund og vikulegir notendur á Vísi og mbl.is eru um 200-220 þúsund.
Á þennan mælikvarða er Heimildin á vefnum um 7% af því sem Vísir og mbl.is eru, um 12% af DV og um 16% af vef Ríkisútvarpsins.
Staða Heimildarinnar er samkvæmt þessu hlutfallslega sterkari á veikum prentmarkaði en á vaxandi netmarkaði.