Reikna má með að bankarnir hækki útlánsvexti sína um næstu mánaðamót en fari sér hægt í að hækka innlánsvexti. Það hefur verið reglan síðustu misseri. Eftir hækkun má reikna með að vextir á yfirdráttarlánum fari í 16,5%, sem eru 5,9% raunvextir í 10% verðbólgu. Á sama tíma munu vextir á launareikningum varla fara yfir 2% sem er neikvæðir vextir upp á 7,3%.
Áður en Seðlabankinn byrjaði að hækka vexti fóru stýrivextirnir lægst niður í 0,75%. Þá voru engir vextir á veltureikningum en vextir á yfirdrætti 8,5%. Þá var verðbólgan 4% og því neikvæðir vextir upp 3,9% á launareikningnum en 4,3% jákvæðir vextir á yfirdrættinum. Vaxtamunurinn var 8,2 prósentur.
Í dag er tæplega 10% verðbólga og 1,75% vextir á launareikningum. Það gerir neikvæðir vextir upp á 7,5%. Á sama tíma er 15,25% vextir á yfirdrættinum, sem gera 4,8% jákvæðir vextir. Vaxtamunurinn er 12,3 prósentur.
Og innan skamms má reikna með 1,25 prósentu hækkun á yfirdráttinn en varla meira en 0,25-0,50 hækkun á launareikninginn. Vaxtamunurinn mun því hækka enn.
Þetta er ein af ástæðum þess að hagur bankanna hefur vaxið hratt á sama tíma og hagur almennings hefur versnað. Kerfið ýtir undir hagnað bankanna á verðbólgutímum en grefur undan afkomu heimilanna.
Á Íslandi er það svo að ríkið á einn af þremur leiðandi bönkum og er með ráðandi stöðu í öðrum til. Ríkið er því ráðandi og markaðsráðandi aðili á bankamarkaði. Einhver gæti haldið að þessi ítök almannavaldsins í bankakerfinu myndi styrkja stöðu almennings gagnvart fjármálakerfinu. Svo er þó ekki. Það er stefna núverandi stjórnvalda að ríkisbankinn og bankinn sem ríkið á ráðandi hlut í hegði sér eins og grimmur kapítalisti og hafi það eitt að markmiði að hámarka hagnað sinn. Jafnvel þótt það gangi frá fjárhag fjölda heimila og fyrirtækja.
Vegna sterkrar stöðu ríkisins á bankamarkaði verður að ætla að það sé einarður vilji ríkisstjórnar og Alþingi að bankakerfið fái að halda áfram að auka vaxtamuninn. Enginn ráðherra hefur gert athugasemdir við þetta.