Stjórn Strætó hefur samþykkt að skoða útboð á 1-2 leiðum frekar en að kaupa nýja vagna. Trúnaðarmaður Strætó segir vagnstjóra uggandi yfir fréttunum. Ekkert samráð hafi verið haft við þá og óljóst er hvaða þýðingu þetta hefur fyrir störf þeirra. Með uppboði á leiðum er líklegt að vagnstjórar hjá einkafyrirtækjum keyri leiðirnar, en þeir eru á lægri launum en starfsmenn Strætó.
Föstudaginn 9. júní var haldinn fundur í stjórn Strætó bs. Eins og fram kom hjá Samstöðinni í vikunni er staða vagnaflotans að hruni komin. Þessi mál voru til umræðu á fundinum. Í stjórn Strætó bs. sitja fulltrúar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Talað var um að tveir kostir væru í boði, annars vegar að ráðast í innkaup á 6 til 8 nýjum vögnum á ári næstu þrjú árin. Hins vegar að ráðast í útboð á 1-2 leiðum.
Í „ljósi fjárhagsstöðu Strætó og í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélaganna“ var lagt til við stefnuráð sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) að farið yrði í útboðsleiðina og ákvörðun tekin sem fyrst. Ekki er hægt að samþykkja nein mál á vettvangi Strætó bs. án aðkomu fulltrúa Reykjavíkur. Gera má því ráð fyrir að fulltrúi Reykjavíkur hafi stutt útboð á leiðum, sem kallaðar eru útvistanir.
Útvistanir þýða að í stað þess að kaupa vagna eða ráða bílstjóra beint fyrir Strætó, eru þeir leigðir af fyrirtækjum með starfsfólki. Slíkt þýðir yfirleitt að störfum þeirra sem starfa beint fyrir Strætó bs fækkar. Ekki kom fram í þessari samþykkt hver afdrif beinráðinna vagnstjóra yrðu við fyrirhugaðar útvistanir. Laun eru töluvert lægri hjá þeim sem vinna fyrir verktaka heldur en þeirra sem eru hjá Strætó. Nemur mismunurinn tugum þúsunda á mánuði.
Við vinnslu fréttarinnar var haft samband við trúnaðarmann Strætó, Pétur Karlsson. Hann segist hafa frétt af þessari fundargerð í gegnum vagnstjóra. Ekkert samráð hafi verið haft né vagnstjórar verið upplýstir um málið.
„Vagnstjórar eru mjög uggandi yfir þessum fréttum. Stéttarfélagið hefur verið upplýst um málið og verður væntanlega tekið fyrir þar. Ekki var haft samráð eða vagnstjórar upplýstir um þetta mál. Auk þess höfum við engar upplýsingar um hvort þetta þýðir uppsagnir,“ segir Pétur.
Fundargerð Strætó má sjá hér. Málið sem um ræðir er undir lið 3.