Baráttan um byssurnar: Mennirnir sem lugu að þjóðinni um vopnavæðingu enn í sömu störfum

Samstöðin greindi nýverið frá því að ætla má að eitt síðasta verk Jóns Gunnarssonar sem dómsmálaráðherra hafi verið að kaupa um 400 skammbyssur, 400 hríðskotabyssur og mikinn fjölda skotfæra fyrir fund Evrópuráðsins í Hörpu. Þar með hefur langþráður draumur lögreglunnar á Íslandi ræst. Leiðin að vopnavæðingu lögreglunnar hefur þó verið þyrnum stráð. Þá er skemmst að minnast þess þegar ráðabrugg lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar um að kaupa hríðskotabyssur af norska hernum fór út um þúfur árið 2014.

Það var DV sem greindi fyrst frá leynilegri vopnavæðingu lögreglunnar í október árið 2014. Þá var greint frá því að lögregluyfirvöld hefðu keypt 200 MP5-hríðskotabyssur, án þess að nokkur umræða um það hefði farið fram, nema þá bak við tjöldin. Í fyrstu frétt DV af málinu var rætt við Ögmund Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, en hann greindi frá því að talsverður þrýstingur hefði verið frá æðstu yfirmönnum lögreglunnar meðan hann gegndi embætti. Ögmundur taldi ekki ólíklegt að eftir að hann steig niður hefðu æðstu menn löggæslunnar lagt þrýsting á nýjan ráðherrra um að fá að vopnavæðast.

Í grófum dráttum snerist ráðbruggið um að Landhelgisgæslan og Ríkislögreglustjóri myndu skipta MP5-byssum á milli sín. Þann 17. desember árið 2013 samdi gæslan um kaup á 250  MP5 hríðskotabyssum, en Ríkislögreglustjóri átti að fá 150 stykki. Fyrir átti lögreglan 60 hríðskotabyssur og því var um að ræða stóraukna vopnavæðingu. Fyrirætlanir lögreglunnar voru á þá leið að lögreglubifreiðar á landinu yrðu búnar MP5-hríðskotabyssu.

Málið dróst nokkuð á langinn og var fjarri lagi lokið eftir fyrstu frétt DV. Þannig kom síðar í ljós að æðstu yfirmenn bæði Landhelgisgæslunnar og Ríkislögreglustjóra lugu að almenningi. Fyrst var því haldið fram að norska lögreglan hefði afhent vopnin, en það var lygi. Það var norski herinn sem afhenti vopnin. Þetta var ekki eina lygi æðstu stjórnenda löggæslu á Íslandi í málinu.

Jón Bjartmarz, þáverandi yfirlögregluþjónn, laug að þjóðinni í viðtali í Kastljósinu á RÚV og sagði að byssurnar hefðu verið gjöf. „Ég notaði nú eig­in­lega orðið aflað [í sam­tali við fjöl­miðla] í dag, sem kannski olli því að menn töldu að þau hefðu verið keypt. En það er ekki; þau feng­ust gef­ins,“ sagði Jón í Kastljósinu. Þetta var lygi, því Ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæslan höfðu gert samningu um greiðslu á 625 þúsund norskum krónum fyrir byssurnar.

Jón starfar enn sem yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjórna og var síðast í fjölmiðlum í fyrra þegar hann sótti Evrópuráðstefnu Interpol fyrir hönd íslenska ríkisins.

Jón var ekki eini íslenski embættismaðurinn sem laug að þjóðinni í tengslum við hríðskotabyssumálið. Það gerði einnig Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Þegar málið kom upp neitaði hann að upplýsa um efni samningsins við norska herinn. Georg fullyrti að þetta væri NATO-samningur og því trúnaðarmál. Norski herinn upplýsti hins vegar um hið sanna í málinu, það var Landhelgisgæslan sjálf sem hafði farið fram á að leynd hvíldi yfir samningnum.

Georg starfar enn sem forstjóri Landhelgisgæslunnar. Árið 2019 sæmdi forseti Íslands hann heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Það má segja að hríðskotabyssumálinu hafi lokið sumarið 2015 en þá greindi Stundin frá því að byssurnar væri komnar aftur til Noregs.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí