Loftslagsráð vill að stjórnsýsla loftslagsmála verði færð upp á neyðarstig

Loftslagsráð er sjálfstætt ráð skipað fulltrúum stjórnvalda, vísindasamfélagsins, umhverfisverndarsamtaka, atvinnurekenda, launþegahreyfingarinnar og fleiri. Það veitir stjórnvöldum faglega ráðgjöf um loftslagsmál. Skipunartími þess rennur út í haust og í lokauppgjöri ráðsins gagnrýna þau stjórnvöld fyrir hægagang og ómarkvissa vinnu í málaflokknum. Lagt er til að stjórnsýsla loftslagsmála verði færð upp á neyðarstig.

Loftslagsráð hefur margoft áður gagnrýnt stjórnvöld fyrir ómarkvissa vinnu í málaflokknum. Markmið ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 eru sögð óljós og ófullnægjandi. Loftslagsráð fer fram á það að stjórnvöld skýri og útfæri þau nánar. Auka þarf samdrátt hratt og til þess að ná því hratt þarf að fara af undirbúningsstigi á framkvæmdarstig.

Kunnuglegur tónn í uppgjöri ráðsins

Skipunartími Loftslagsráðsins var fjögur ár og yfir þann tíma hefur gagnrýni þeirra á stjórnvöld verið nákvæmlega þessi. Í uppgjöri ráðsins ítreka þau þessa gagnrýni og leggja til þess að stjórnsýsla loftslagsmála verði færð upp á neyðarstig. Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðsins sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að ríkisstjórnin og þjóðin hafi hingað til ekki áttað sig fyllilega á hversu víðtækra breytinga er þörf til að ná markmiðum stjórnvalda í minnkun losunar. Það þarf mun meiri samþættingu innan ríkisstjórnarinnar. Halldór bendir á það til dæmis að það liggi ekki fyrir hver ábyrgð einstakra ráðherra er í málaflokknum. Taka þarf skýrt fram hver ber ábyrgð á hverju og mæla nákvæmlega hvar samdráttur í losun á að fara fram. Halldór tekur sem dæmi að þegar ferðaþjónustan var að kynna sínar fyrirætlanir að þá litu þau ekki þannig á að þau bæru ábyrgð á losun frá aukinni umferð um vegi landsins. Allir benda hver á annan.

Uppgjör Loftslagsráðs

Stefnir í Íslandsmet á bruna jarðefnaeldsneytis á vegum landsins

Samkvæmt árlegri landsskýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda var heildarlosun á Íslandi um 14,1 milljón tonn af CO2-ígildum árið 2021. Losun jókst á milli áranna 2020 og 2021 og hún hefur aukist um 6% síðan árið 1990.

Losun kemur langmest frá landnotkun, eða 9.4 milljón tonn. Iðnaður og efnanotkun losaði 2 milljón tonn árið 2021, orkunotkun um 1,77 milljón, landbúnaður 620 þúsund tonn og úrgangur 268 þúsund tonn.

Í skýrslunni framreiknar Umhverfisstofnun losun Íslands og þegar tekið er tillit til aðgerða til að draga úr losun sem þegar eru komnar í framkvæmd eða eru staðfestar, er gert ráð fyrir að samdráttur í heildarlosun Íslands muni nema að meðaltali 0,6% á ári, til ársins 2050. Losun Íslands verði því 11,7 milljón tonn árið 2050, sem er langt frá markmiðum Íslands í loftslagsmálum. 

Halldór Þorgeirsson tekur fram í viðtalið við ríkisútvarpið að allt stefni í það að árið 2023 verði nýtt met í losun gróðurhúsalofttegunda sett á Íslandi.

Stjórnsýsla loftslagsmála á neyðarstigi gæfi betra aðhald og meiri eftirfylgni

Loftslagsráðið leggur til að stjórnsýsla loftslagsmála verði sett á neyðarstig. Þannig væri hægt að sinna mun nánara aðhaldi og ráðgjöf og fylgja eftir mismunandi aðilum sem eru að takast á við þetta sameiginlega markmið. Ganga þarf í verkin strax með því að setja upp mun virkari stjórnun aðgerða. Loftslagsráðið kallar eftir því að stofnuð verði framkvæmdastjórn sem hefur ákvörðunar- og ráðstöfunarvald sem getur fylgt þessum aðgerðum eftir. 

Viðtalið við Halldór Þorgeirsson formann Loftslagsráðsins má hlýða á hér

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí