Loftslagsráð er sjálfstætt ráð skipað fulltrúum stjórnvalda, vísindasamfélagsins, umhverfisverndarsamtaka, atvinnurekenda, launþegahreyfingarinnar og fleiri. Það veitir stjórnvöldum faglega ráðgjöf um loftslagsmál. Skipunartími þess rennur út í haust og í lokauppgjöri ráðsins gagnrýna þau stjórnvöld fyrir hægagang og ómarkvissa vinnu í málaflokknum. Lagt er til að stjórnsýsla loftslagsmála verði færð upp á neyðarstig.
Loftslagsráð hefur margoft áður gagnrýnt stjórnvöld fyrir ómarkvissa vinnu í málaflokknum. Markmið ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 eru sögð óljós og ófullnægjandi. Loftslagsráð fer fram á það að stjórnvöld skýri og útfæri þau nánar. Auka þarf samdrátt hratt og til þess að ná því hratt þarf að fara af undirbúningsstigi á framkvæmdarstig.
Kunnuglegur tónn í uppgjöri ráðsins
Skipunartími Loftslagsráðsins var fjögur ár og yfir þann tíma hefur gagnrýni þeirra á stjórnvöld verið nákvæmlega þessi. Í uppgjöri ráðsins ítreka þau þessa gagnrýni og leggja til þess að stjórnsýsla loftslagsmála verði færð upp á neyðarstig. Halldór Þorgeirsson formaður Loftslagsráðsins sagði í viðtali við Ríkisútvarpið að ríkisstjórnin og þjóðin hafi hingað til ekki áttað sig fyllilega á hversu víðtækra breytinga er þörf til að ná markmiðum stjórnvalda í minnkun losunar. Það þarf mun meiri samþættingu innan ríkisstjórnarinnar. Halldór bendir á það til dæmis að það liggi ekki fyrir hver ábyrgð einstakra ráðherra er í málaflokknum. Taka þarf skýrt fram hver ber ábyrgð á hverju og mæla nákvæmlega hvar samdráttur í losun á að fara fram. Halldór tekur sem dæmi að þegar ferðaþjónustan var að kynna sínar fyrirætlanir að þá litu þau ekki þannig á að þau bæru ábyrgð á losun frá aukinni umferð um vegi landsins. Allir benda hver á annan.
Stefnir í Íslandsmet á bruna jarðefnaeldsneytis á vegum landsins
Samkvæmt árlegri landsskýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda var heildarlosun á Íslandi um 14,1 milljón tonn af CO2-ígildum árið 2021. Losun jókst á milli áranna 2020 og 2021 og hún hefur aukist um 6% síðan árið 1990.
Losun kemur langmest frá landnotkun, eða 9.4 milljón tonn. Iðnaður og efnanotkun losaði 2 milljón tonn árið 2021, orkunotkun um 1,77 milljón, landbúnaður 620 þúsund tonn og úrgangur 268 þúsund tonn.
Í skýrslunni framreiknar Umhverfisstofnun losun Íslands og þegar tekið er tillit til aðgerða til að draga úr losun sem þegar eru komnar í framkvæmd eða eru staðfestar, er gert ráð fyrir að samdráttur í heildarlosun Íslands muni nema að meðaltali 0,6% á ári, til ársins 2050. Losun Íslands verði því 11,7 milljón tonn árið 2050, sem er langt frá markmiðum Íslands í loftslagsmálum.
Halldór Þorgeirsson tekur fram í viðtalið við ríkisútvarpið að allt stefni í það að árið 2023 verði nýtt met í losun gróðurhúsalofttegunda sett á Íslandi.
Stjórnsýsla loftslagsmála á neyðarstigi gæfi betra aðhald og meiri eftirfylgni
Loftslagsráðið leggur til að stjórnsýsla loftslagsmála verði sett á neyðarstig. Þannig væri hægt að sinna mun nánara aðhaldi og ráðgjöf og fylgja eftir mismunandi aðilum sem eru að takast á við þetta sameiginlega markmið. Ganga þarf í verkin strax með því að setja upp mun virkari stjórnun aðgerða. Loftslagsráðið kallar eftir því að stofnuð verði framkvæmdastjórn sem hefur ákvörðunar- og ráðstöfunarvald sem getur fylgt þessum aðgerðum eftir.
Viðtalið við Halldór Þorgeirsson formann Loftslagsráðsins má hlýða á hér