Samkvæmt rannsókn sem birt var í dag í vísindatímaritinu Nature Sustainability þá erum við mun nær algjöru hruni á vistkerfum jarðarinnar en áður var talið.
Rannsóknin er aðallega á því sem kallað er vendipunktar (e. tipping points). Með því er átt við það að þegar ákveðnu stigi er náð í einhverju ferli, þá er farið yfir ákveðið mark þar sem ekki verður snúið tilbaka – og áhrifin margfaldast á óumflýjanlegan hátt. Þessir vendipunktar eru eitthvað sem vísindamenn hafa haft miklar áhyggjur af þegar kemur að loftslagsbreytingum, en erfitt hefur verið fyrir þá að segja með nokkurri vissu um hvenær slíkum punkti sé náð og hver áhrifin verði nákvæmlega – sérstaklega þegar kemur að eins flóknum fyrirbærum og vistkerfum jarðarinnar.
Rannsóknin nær til margföldunaráhrifa frá öðrum fyrirbærum einnig, eins og t.d. mengun og vatnsskorts, sem ráðast af pólitískum ákvörðunum.
Samkvæmt nýju rannsókninni þá er áætlað að um 1/5 af mikilvægustu vistkerfum jarðarinnar – og er Amazon skógurinn þar á meðal – muni upplifa katastrófískt hrun innan örfárra áratuga. Segir einn vísindamaðurinn, sem stóð að rannsókninni, að þeir sem nú séu á lífi séu að öllum líkindum þau síðustu til að lifa í heimi með Amazon regnskóginum.
Viðbrögðin við rannsókninni hafa nú þegar verið nokkur, en búist er við að hún muni valda miklum deilum. Brasilískir vísindamenn, eins og Carlos Nobre, hafa nú þegar gagnrýnt hana harðlega – fyrir að ganga ekki nærri því nógu langt í áætlun sinni. Vill hann meina að allt bendir til að þetta hrun sé mun nálægra en rannsóknin gefur til kynna.
Vísindaráð Sameinuðu þjóðanna (Intergovernmental Panel on Climate Change) hefur hingað til áætlað að þessum vendipunkti í Amazon frumskóginum verði ekki náð fyrr en árið 2100 í fyrsta lagi.
Hér er því um verulega stórt endurmat að ræða, byggt á nýjustu rannsóknum.