Þingið vill leyfa Lilju að styrkja áfram Moggann og Sýn

Allir þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd leggja til að frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra um styrki til einkarekinna fjölmiðla verði að lögum. Frumvarpinu hefur þó verið breytt. Það gildir aðeins út árið svo talist að afgreiða styrki fyrir næsta ár.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins setti sem skilyrði fyrir samþykki sínu að staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði yrði skert. Og Lilja ráðherra segist ætla að gera það með þeim hætti að auglýsingadeild RÚV verði nánast sem pöntunarsíða, án afsláttar og án virkrar sölumennsku. Og síðan á að setjast niður aftur og semja um framtíðarfyrirkomulag þessara styrkja. Sjálfstæðisflokkurinn vill tengja styrkinn sem mest við áskrift, telur að það gagnist best Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.

Þetta mál er því að bólgna út í mikinn óskapnað sem vandséð er að muni styrkja fjölmiðlun á Ísland nokkuð. Frá því styrkjakerfinu var komið á hefur eitt stórt fjölmiðlafyrirtæki farið á hausinn: Torg, sem hélt úti Fréttablaðinu, sjónvarpsstöðinni Hringbraut og netmiðlinum DV. Helgi Magnússon, fjárfestir og einn af hvatamönnum að stofnun Viðreisnar, hafði keypt þessa miðla fyrir offjár og dælt í þá ógrynni til viðbótar. Þegar engin von var um að hægt væri að reka þetta án mikils taps tók hann dv.is út úr fyrirtækinu og ætlar að reyna að græða pening á þeim miðli, sem að mestu byggir á svokölluðum fréttum af Facebook og þýðingum úr erlendri götupressu. Á verðlagi dagsins fékk Torg rúmlega 162 m.kr. í styrki á síðustu tveimur árum. Sá stuðningur til Helga dugði ekki til.

Norðlenska sjónvarpsstöðin N4 gafst líka upp þrátt fyrir 43,6 m.kr. styrk á núvirði síðustu tvö árin. Kjarninn og Stundin sameinuðust og urðu að Heimildinni, en þessir miðlar hafa fengið samanlagt rúmar 82,4 m.kr. á núvirði í styrk á síðustu tveimur árum.

Framlagið fyrir næsta ár mun hækka um 100 m.kr. Samhliða því verða landsbyggðarmiðlar vigtaðir upp fyrir úthlutun, geta fengið meira en sem nemur 25% af launakostnaði ritstjórnar í styrk, allt að 45%. Þessi hækkun framlag til landsbyggðarmiðla mun auka framlagið til þeirra sérstaklega um varla meira en um 30 m.kr. ef miðað er við úthlutanir fyrir yfirstandandi ár. 70 m.kr. munu því stækka pottinn, eins og þær 87,5 m.kr. sem Torg og N4 fengu síðast.

Það má því áætla að stórútgerðin sem gefur út Morgunblaðið fái tæplega 100 m.kr. í styrk á næsta ári. Og sömuleiðis Sýn. Framlög til þessara miðla munu aukast mest að krónutölu.

Miðað við forsendur frumvarpsins má ætla að framlag ríkisins skiptist svona á næsta ári milli fjölmiðlaflokka:

Tegund Styrkur 2024Hlutfall
Fréttamiðlar330,7 m.kr.68,8%
Landsbyggðarmiðlar101,0 m.kr.21,0%
Tímarit25,1 m.kr.5,2%
Túristablöð15,5 m.kr.3,2%
Sportvefur8,5 m.kr.1,8%

Mest fer til fréttamiðla, sem þarna eru miðlar Árvakurs (Morgunblaðið, mbl.is, K100 og Retró), miðlar Sýnar (Vísir, Stöð 2 og tilheyrandi sjónvarpsstöðvar og Bylgjan og tilheyrandi útvarpsstöðvar), Heimildin, Viðskiptablaðið, Bændablaðið og Mannlíf. Þetta er sorglega stuttur listi.

Næst koma landsbyggðarmiðlar: Skessuhorn, Víkurfréttir, Vikublaðið, Feykir, Austurglugginn, Fréttablað Suðurlands, Eyjafréttir, Jökull, Tígull og Fjarðarfréttir.

Tímaritin eru tímarit Birtings (Gestgjafinn, Hús og híbýli, Vikan og nokkrir vefir) og Lifandi vísindi. Túristaútgáfan er annars vegar Reykjavík Grapevine og hins vegar Iceland Review og WhatsOn. Sportvefurinn er Fótbolti.net.

Þarna vantar t.d. DV. Það er ólíklegt að DV nái að uppfylla skilyrði fyrir styrk á næsta ári. En eins og sést af því hversu fjölbreytilegir miðlar eru þarna þá má vera að einhverjir sem hingað til hafa ekki uppfyllt skilyrði um þrjá starfsmenn á ritstjórn hafi náð því á síðasta ári. Útvarp Saga hefur t.d. ekki uppfyllt skilyrðin hingað til.

Ef við skiptum framlaginu til fréttamiðlanna má ætla að skiptingin verði um það bil svona:

MiðillStyrkir 2024Hlutfall
Mogginn99,2 m.kr.30,0%
Miðlar Sýnar99,2 m.kr.30,0%
Heimildin54,7 m.kr.16,5%
Viðskiptablaðið37,2 m.kr.11,2%
Bændablaðið24,9 m.kr.7,5%
Mannlíf15,6 m.kr.4,7%

Þarna eru efst miðar sem hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki styrki, Árvakur fyrir hönd Moggans og Sýn. Viðskiptablaðið hefur líka talað gegn styrkjunum. 71% styrkjanna fara því til miðla sem ekki vilja fá þá. Og þurfa líklega ekki á þeim að halda. Miðlar Sýnar hafa verið reknir með hagnaði og sömuleiðis Viðskiptablaðið. Stórútgerðin hefur haldið Mogganum á floti. Styrkur til útgerðarinnar niðurgreiðir aðeins það sem hún er tilbúin að borga fyrir að halda úti áróðri fyrir hagsmuni sína, t.d. laun Davíðs Oddssonar. Bændablaðið er líka gefið út af hagsmunasamtökum, Bændasamtökum Íslands, sem njóta ríkisstyrkja.

Þá eru aðeins eftir tveir miðlar sem eru líklega háðir þessum styrkjum, myndu annars vera í tapi og hafa ekki svona sugar daddy eins og útgerðin er fyrir Moggan og Helgi Magnússon var fyrir Fréttablaðið, það er auðfólk sem hægt er að sækja fé til. En það getur ekki verið meining Alþingis að leggja í svona langa og dýra ferð til að styrkja Heimildina og Mannlíf. Og svo auðvitað landsbyggðarblöðin.

Þetta kerfi er því hálfgerður óskapnaður og ekkert sem nokkur var að biðja um. Samt andmæla miðlarnir því ekki af neinni hörku og enn síður Blaðamannafélagið. Blaðamenn og útgefendur þiggja peninginn, líklega með því hugarfari að vont kerfi sé betra en ekkert.

Menningarmálaráðuneytið heldur utan um kerfi til stuðnings bókaútgáfu og kvikmyndagerð sem er allt öðru vísi. Þar er annars vegar styrkir til listamanna í gegnum Rithöfundasjóð og styrkir til verkefna í gegnum Kvikmyndamiðstöð. Útgáfufyrirtækin og Kvikmyndagerðarfyrirtækin fá síðan endurgreiðslu af framleiðslukostnaði, 35% af öllum innlendum kostnaði. Fjölmiðlarnir fá aðeins styrk út á 25% af launakostnaði ritstjórnar tveimur árum fyrr.

Ráðuneytið, ríkisstjórn og Alþingi vinna ekki að því að búa til sambærilegt kerfi kringum fjölmiðla. Engar umræðu eru að styrkja blaðamenn beint eins og gert er við rithöfunda og annað listafólk. Ekki heldur að styrkja einstök verkefni eins og gert er hjá Kvikmyndamiðstöð. Að baki þessum styrkjum liggur mat á gæðum og gildi verka. Það er eins og stjórnvöld vilji alls ekki færa fjölmiðlastyrkina út á slíkt svæði.

Til að gefa dæmi um hvernig slíkt gæti litið út væri t.d. blaðakona sem sækti um styrk til að rannsaka íslenska húsnæðiskerfið eða blaðamaður til að taka viðtöl við verkafólk. Ef þau fengju styrkinn gætu þau unnið að þessum verkefnum og annað hvort á leiðinni eða þegar efnið er klárt samið við fjölmiðil um birtingu. Hjá rithöfundum og útgefendum kemur þetta þannig út að laun rithöfundar er samsett annars vegar af höfundarlaunum og hins vegar starfslaunum, og oft vigta höfundarlaunin ekki nema 20% á móti 80% frá starfslaunum. Rithöfundasjóður niðurgreiðir launakostnað útgefandans, en aðeins til listamannsins. Og á móti hefur Rithöfundasjóður mikið um það að segja hvaða bækur eru gefnar út.

Sambærileg umsókn og fer til Kvikmyndasjóðs gæti t.d. verið að hópur fólks leggi fram plan um að byggja upp Samstöðina, fréttavef og vídeó-podcast, sem þróast getur út í að verða útvarps- og sjónvarpsstöð.

Það er svona mat á mikilvægi og gæðum sem kerfið í kringum fjölmiðlana forðast. Það leiðir því ekki nema að mjög takmörkuðu leyti til meiri eða öflugri fjölmiðlunar. Kerfið vill viðhalda því sem er og hefur orðið til á markaði sem hefur í reynd brostið. Kerfið er sett upp vegna markaðsbresta en styður kannski við þá frekar en að vinna gegn þeim.

Það má færa rök fyrir því að kerfið dragi úr möguleikum á nýjum miðlum. Ef þú stofnar Fréttablaðið í dag þarftu að skrá það hjá fjölmiðlanefnd til að eiga rétt á styrk og þú getur ekki sótt um fyrr en ár er liðið frá skráningu. Þá er kominn júní 2024. Næst eru teknar fyrir umsóknir í október 2024 fyrir styrki á árinu 2025. Grunnurinn að baki þeim styrk er ritstjórnarkostnaður á árinu 2023. Þar sem þú byrjaðir ekki útgáfu fyrr en á miðju ári muntu þá fá hálfan styrk á við Moggann fyrir árið 2025 og ekki fullan styrk fyrr en árið 2026. Í janúar það ár hefurðu hins vegar keyrt á sama ritstjórnarkostnaði og Mogginn, í 30 mánuði. Á þeim tíma hefur Mogginn fengið 248 m.kr. í styrk, miðað við útreikningana hér að ofan, en þú aðeins tæpar 25 m.kr. Ef þú ætlar í samkeppni við Moggann á morgun þarftu því að eiga 223 m.kr. umfram það sem stórútgerðin á til að greiða upp tapið á þínu blaði meðan þú bíður þess að fá álíka styrk og Mogginn.

Þetta styrkjakerfi hefur því miklar og alvarlegar aðgangshindranir. Það tryggir í raun stöðu þeirra miðla sem eru fyrir gagnvart miðlum sem gætu orðið til. Það hefur því yfir sér einkenni kvótakerfis, að þeir miðlar sem eru sloppnir inn fái styrk til að verja sig fyrir samkeppni við nýja miðla.

Og eins og sjá má af listanum eru það fyrst og fremst fjölmiðlar beint og óbeint tengdir Sjálfstæðisflokknum og hugmyndafræði þess flokks sem fá styrki. Það er því undarlegt að það voru fulltrúar annarra flokka sem sóttu hart að fá þetta kerfi sett á laggirnar, börðust gegn andstöðu Sjálfstæðisflokksins. Mótþróa sem líklega var uppgerð. Fjölmiðlar tengdir flokknum hlæja alla leiðina í bankann með megnið af þessum styrkjum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí