Þeim heimilum fjölgaði mikið sem þurftu fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna í fyrra, fjölgaði um 2.226. Miðað við að heimilin séu um 160 þúsund þá þurftu 8.523 heimili á aðstoð að halda eða 5,3% allra heimila. Hlutfallið fór úr 3,8% heimila 2021 í 5,3% heimila 2022.
Þau sem sækja eftir fjárhagsaðstoð heimilanna hafa fullnýtt allar aðrar bjargir, lífeyri, atvinnuleysisbætur og allt það sem hið almenna öryggisnet á að veita. Það er því hátt hlutfall og bendir til þess að öryggisnetið sé götótt þegar tuttugasta hvert heimili þarf að leita til sveitarfélagana eftir fjárhagsstuðningi.
Þau heimili sem fengu stuðning í fyrra skiptast þannig:
Heimili | Fjöldi | Hlutfall |
---|---|---|
Einstæðir karlar með börn | 217 | 2,5% |
Einstæðir karlar, barnlausir | 3.250 | 38,1% |
Einstæðar konur með börn | 1.422 | 16,7% |
Einstæðar konur, barnlausar | 2.016 | 23,7% |
Einstæð kynsegin/annað, með börn | 10 | 0,1% |
Einstæð kynsegin/annað, barnlaus | 22 | 0,3% |
Hjón /sambúðarfólk með börn | 949 | 11,1% |
Hjón /sambúðarfólk, barnlaus | 620 | 7,3% |
Vantar upplýsingar | 17 | 0,2% |
Það vekur athygli að hlutfallslega fjölgaði heimilum sambúðarfólks mest í fyrra. Það bendir til að fátæktin sé að færa sig víðar, hún var búin að klófesta einstæðinga og einstæða foreldra en náði lengra í fyrra, inn á heimili þar sem eru tvær fyrirvinnur.