Borgarstjóri grípur inn í og takmarkar fyrirhugaðar launahækkanir borgarfulltrúa

Borgarmál 13. júl 2023

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að draga úr fyrirhuguðum launahækkunum borgarfulltrúa næstu mánaðamót. Í stað þess að hækka þau um 7,88% verða þau hækkuð um 2,5%. Þannig er verið að feta í sömu spor og Alþingi fór í sumar, sem hélt hækkunum þingmanna og ráðherra við það hlutfall.

Tillagan var samþykkt með fimm greiddum atkvæðum af sjö. Fulltrúar Sjálfstæðsflokksins, Marta Guðjónsdóttir og Kjartan Magnússon sátu hjá. Í henni var lagt til að grunnlaun borgarfulltrúa hækki úr 963.647 kr. í 987.738 kr. Borgarstjóri óskar einnig eftir sömu breytingum á sínum launum. Tillagan felur í sér að grunnlaun borgarfulltrúa hækki um 24.091 kr. um næstu mánaðamóti í stað 76.000 kr. eins og fyrirhugað var.

Á borgarstjórnarfundi 20. júní sl. lögðu fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands fram tillögu um að hætt yrði við launahækkanir borgarfulltrúa. Á meðan yrði fyrirkomulag launagreiðslna endurskoðað með það að markmiði að koma á launabili milli þeirra hæstu og lægstu. Þeirri tillögu var vísað til borgarráðs þar sem hún kæmi til skoðunar.

Nú um mánuði síðar virðist sú tillaga hafa gert það að verkum að borgarstjóri sá ástæðu til að grípa inn í. Hingað til hafa meirihlutaflokkarnir ítrekað fellt tillögu Sósíalistaflokksins um að girða fyrir launahækkanir eða endurskoða fyrirkomulagið. Eins og staðan er í dag byggja launin á launavísitölu, og hækka í takt við hana tvisvar á ári, í janúar og júlí. Breytingin sem um er að ræða mun taka gildi afturvirkt frá 1. júlí.

Tillagan var lögð fram af borgarstjóra Reykjavíkur, Degi B. Eggertssyni. Í rökstuðningi með málinu kemur fram að vegna efnahagsaðstæðna sé lagt til að hækkun á launum kjörinna fulltrúa verði minni en samþykktir borgarstjórnar gera ráð fyrir. Með þessu mun Reykjavíkurborg spara sér um 15 milljónir króna á tímabilinu júlí-ágúst á þetta árið.

Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands í borgarráði, Trausti Breiðfjörð Magnússon, bókaði eftirfarandi undir liðnum: „Við hefðum viljað ganga lengra og taka ekki við neinum launahækkunum í því árferði sem nú ríkir. Launin eru mjög há í samanburði við margt af því fólki sem borgarfulltrúar vinna fyrir. Þetta er hins vegar skref í rétta átt. Með samþykkt þessarar tillögu er meirihluti borgarstjórnar loksins að viðurkenna að eðlilegt sé að líta til utanaðkomandi þátta þegar launahækkanir eru ákvarðaðar.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí