Frakkland logar enn í uppreisn, fimmta daginn í röð

Franska lögregla handtók 719 manns í gær vegna uppreisnar almennings í kjölfar þess að lögreglumaður í París skaut til ólífis ungan óvopnaðan mann, sem hefur aðeins verið nefndur Nahel M í opinberri umræðu. Nahel var borinn til grafar í gær og í kjölfarið efldust mótmælin enn frekar.

Uppreisn almennings núna er í reynd liður í viðvarandi uppreisn almennings í Frakklandi gegn stjórnvöldum. Í vetur voru hörð mótmæli vikum saman víða um land vegna skerðingar Emmanuel Macron á eftirlaunaréttindum launafólks. Síðastliðið haust voru stórar kröfugöngur vegna hækkun orkuverðs og skerðingu lífskjara vegna verðbólgu. Það voru víða mótmæli þegar Macron var endurkjörinn fyrir ári. Áður hafði þrengingu persónuréttinda verið mótmælt, þegar ríkisstjórn Macron jók mjög eftirlit með fólki til að brjóta niður mótmæli. 2020 var aðgerðum stjórnvalda í Cóvid-faraldrinum mótmælt. 2019 voru hörð mótmæli gegn fyrri ráðagerðum um að skerða efirlaunaréttindi launafólks. Haustið 2018 var uppreisn gulvestinga, sem byrjuðu sem mótmæli gegn loftlagssköttum sem skertu lífskjör lágtekjufólks en snerust fljótt upp í mótmæli gegn stjórnarstefnunni almennt, þeirri nýfrjálshyggju sem Macron vill troða ofan í kokið á frönskum almenningi. Um vorið sama ár voru fjöldagöngur verkalýðsfélaga gegn ráðagerðum um að draga úr valdi verkafólks. Og það voru líka mótmæli víða árið 2017, árið sem Macron komst til valda.

Eðlilegt er að líta á öll þessi mótmæli sem samfellu. Þótt tilefnin séu mismunandi þá eiga þau það öll sammerkt að beinast gegn auðmannadekri Macron, skattalækkunum til hinna ríku, og aðgerðum hans til að skerða völd verkalýðsfélaga og réttindi launafólks. Ef uppreisnin nú ættu sér stað í öðrum heimshluta væri hún kölluð vor, samanber arabíska vorið. En þar sem uppreisnin fer fram í miðri Evrópu fær hún ekki nafngiftina Franska vorið og málstaður mótmælenda kemst illa til skila í fjölmiðlum. Öll athygli fjölmiðla er á aðgerðir stjórnvalda til að stöðva mótmælin, iðulega með hörku. Og ef það tekst, má reikna með að mótmælin springi síðan fram við næsta tilefni, vegna þess að stjórnvöld neita að beygja sig fyrir kröfum almennings.

Frakkland er því að einhverju leyti eins og hertekið land þar sem valdastéttin mætir andstöðu almennings með brimvörðu lögregluliði. Stjórnarstefnan gengur þvert á vilja mikils meirihluta landsmanna eins og hann birtist í öllum skoðanakönnunum. Og stjórnvöld gefa ekkert eftir, láta helst aldrei undan kröfum almennings af ótta við að lögmæti stjórnvalda muni falla eins og dóminókubbar ef þau gefa tommu eftir.

Það verður því líklega barist á götum Frakklands í kvöld og nótt. Og líklega næstu misserin, allt þar til Frakklandi auðnast að finna stjórnvöld sem stýra landinu í takt við almannavilja.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí