Tvö þúsund og fimm hundruð íbúðir eru á skammtímaleigumarkaði í Reykjavík, eða 4.2% af öllu húsnæði í borginni. Fjöldi íbúða á skammtímaleigumarkaði í Reykjavík jafngildir þrefaldri ársframleiðslu á íbúðum, sem um þessar mundir dregst saman sem aldrei fyrr. Reykjavík sker sig úr á meðal Evrópskra höfuðborga sem þó flestar hafa fyrir löngu skorið upp herör gegn skammtímaleigumarkaði. Ekkert bólar hinsvegar á aðgerðum eða áhyggjum sveitarfélagsins af stöðunni þrátt fyrir að íbúar í borginni búi mikið þéttar en í flestum öðrum höfuðborgum Evrópu og hér sé viðvarandi og meiri íbúðaskortur en víðast annarsstaðar.
Mikið hefur verið rætt um skaðleg áhrif skammtímaleigumarkaðarins á húsnæðisframboð og húsaleigu og því hafa flest ríki í Evrópu farið þá leið að takmarka verulega skammtímaútleigu íbúða í þéttbýli. Þrátt fyrir að önnur lönd hafa sett mjög stífar skorður við slíkri starfssemi höfðu engin þeirra litið álíka tölur og sjást núna í Reykjavík.
Í flestum stærri borgum Evrópu er hlutfall íbúða á skammtímaleigumarkaði á milli 0.5-1%, þó að víða sé hlutfallið mikið lægra s.s. í Stokkhólmi og Berlín en þar er það í kringum 0.2-0.3%. Höfuðborgir nágranna okkar, Osló og Kaupmannahöfn státa hinsvegar af því að vera með annað og þriðja hæsta hlutfallið í Norður Evrópu eða 1.5% og 2.2%. Þrátt fyrir að þessar borgir séu í sérflokki varðandi fjölda íbúða á skammtímaleigumarkaði þá eru þau varla hálfdrættingar á við Reykjavík, með sín 4.2%.
Þrátt fyrir að megnið af íbúum álfunnar flykkist í frí suður á bóginn yfir sumartímann með tilheyrandi álagi á gisti-iðnaðinn er ástandið þar langt frá því að vera eins slæmt og hér á Íslandi. Í Madrid höfuðborg Spánar er hlutfall íbúða í skammtímaleigu til dæmis aðeins 0.9% og í Barcelona einum vinsælasta áfangastað heims er það 1.3%. Portúgalir nágrannar spánverja á Íberíuskaganum hafa hinsvegar verið að berjast við ófremdarástand á skammtímaleigumarkaði um skeið, ástand sem kom í kjölfar mikillar spákaupmennsku á húsnæðismarkaði þar í landi.
Hlutfall íbúða á skammtímaleigumarkaði í Lissabon höfuðborg Portúgals fór síðasta sumar í heil 3.3%, það hlutfall þótti bæði íbúum og stjórnvöldum bera merki um stjórnleysi í geiranum. Til að bregðast við hafa stjórnvöld nýlega sett stífar og íþyngjandi reglur sem eiga draga úr fjölda íbúða í skammtímaleigu sem og ásókn spákaupmanna í húsnæði.
Íbúafjöldi í Lissabon er rétt rúmlega hálf milljón og heildarfjöldi íbúða er þrjú hundruð og tuttugu þúsund. Það gerir Lissabon með minnsta íbúaþéttleika af Evrópskum höfuðborgum eða 1.6 íbúa á hverja íbúð. Sama tala fyrir Reykjavík er 2.2 íbúar á hverja íbúð sem er á pari við borgir eins og London og Barcelona.
Samkvæmt portúgölskum stjórnvöldum eru þessar aðgerðir nauðsynlegar til að verja íbúa borgarinnar og samfélag þeirra. Vegna þessa ófremdarástands á húsnæðismarkaði mældist Lissabon nýlega sem einhver ólífvænlegasta borg í heimi en hún endaði í þriðja neðsta sæti í mælingum vorið 2022.
Aðeins eitt efnahagssvæði í Evrópu er með hærra hlutfall af íbúðum í skammtímaleigu en Reykjavík svo vitað sé en það er Mallorca, þar er hlutfallið 5%.
Heimildir: www.airdna.co og hagstofur evrópskra ríkja.
Meira um skammtímaleigumarkaðinn í Reykjavík: