Stjórnendur Reykjavíkurborgar virðast eiga jafn erfitt með að tæma ruslatunnur og að moka snjó. Í dag má víða sjá yfirfullar ruslatunnur í borginni, þó sérstaklega miðsvæðis, og hafa margir kvartað á samfélagsmiðlum undan þessu. Ekki verður betur séð en að vandamálið snúist um að borgin, eða verktaki á hennar vegum, sinni því einfaldlega ekki að tæma tunnurnar.
Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, er meðal þeirra sem birta mynd af yfirfullum ruslatunnum á Facebook. „Svona er ástandið við fjölmarga grenndargáma í borginni. Ef það færi að blása myndi sorpið dreifast út um allt. Auðvitað koma upp erfiðleikar í rekstri en þetta gerist alltof oft. Það verður að tæma gámana tíðar,“ segir Stefán. Myndina sem hann deilir má sjá hér fyrir neðan.

Myndin hér fyrir ofan var hins vegar birt innan Facebook-hóps íbúa í miðborginni. Kona nokkur hóf umræðuna með því að sýna tunnurnar og skrifa: „Ég er orðlaus yfir þessu ógeði og langar mest til að flytja héðan, þetta er útsýnið úr mínum glugga.“
Margir taka undir með henni og segja þetta óboðlegt. Sumir vilja þó meina að sökina eigi þeir sem tóku ruslið ekki með sér heim, þegar þeir sáu að tunnan var full. Ein kona svarar þessu: „Ef fólk skildi ekki eftir ruslið hjá þessum yfirfullu gámum gætu borgaryfirvöld haldið að þarna væri tæmt alveg nógu oft, sem augljóslega er ekki málið. Ég skil vel að fólk sem á til dæmis ekki bíl geri þetta þótt vissulega sé hræðilegt fyrir þá sem búa þarna að þurfa að hafa þetta fyrir augum alla daga. Mér finnst alltof mikil meðvirkni með borgaryfirvöldum á þessum þræði. Borgin ber 100 prósent ábyrgð á þessu ástandi.“
Konan sem kvartaði fyrst svarar og segist ekki vilja ganga svo langt. „Ég veit ekki, er það ekki eitthvað gámafyrirtæki sem ber ábyrgð á þessu? Aðilar frá borginni hafa komið núna daglega utan sunnudag til að hirða þetta rusl og það er búið að tilkynna þetta margsinnis til þeirra aðila sem eiga að sjá um þetta. Það ætti nú að vera nóg ástæða til að tæma gáminn til að það flæði úr honum en þetta fer nú bráðum að flæða niður á Lækjartorg.“
Þessu svarar hin að bragði: „Þetta er á ábyrgð borgarinnar þótt fyrirtækið eða starfsmennirnir sem þeir réðu í verkið hafi klikkað.“

